Sumartími

Nú er búið að opna nýjan pott í Laug Vorri og varla þverfótað fyrir baðgestum. Á sama tíma hafa konur endurheimt inniklefa sinn á efri hæð og karlar útiklefa sinn, en merkingar eru ekki nægilega skýrar svo að enn villast konur í útiklefa karla, hátta sig þar og fara í sturtu. Það getur valdið óþægindum. Á sunnudegi mættu þessir til hefðbundins sunnudagshlaups: Jörundur, Ó. Þorsteinsson, Ingi, blómasali, Þorvaldur og skrifari. Þeir voru sprækir. 

Lagt upp í björtu og fögru veðri, en svölu, ca. 5 stiga hita. Farið afar rólega af stað. Mættum Rúnu sem kom á móti okkur á Hofsvallagötu. Aðspurð hvers vegna hún kæmi ekki með okkur sagði hún að við færum of seint af stað. Hér kviknaði hugmyndin um að færa klukku Samtaka Vorra framar og hefja sunnudagshlaup eigi síðar en 9:10 á sumrin. Var hugmyndinni vel tekið og hún samþykkt og ákveðið að frá og með Sumardeginum fyrsta yrði hlaupið 9:10 á sunnudögum.

Hlaup hélt áfram á hefðbundnum nótum. Aðallega rætt um hinn nýja stjórnmálaflokk Benedikts Jóhannessonar sem mun vafalítið draga mikið fylgi frá Sjálfstæðisflokki. Nefndir voru tveir af núverandi þingmönnum Flokksins sem munu fylgja Benedikt - og Formaður Vor til Lífstíðar taldi líklegt að sér yrði boðið sæti á lista hins nýja flokks.

Venju samkvæmt var gengið í Nauthólsvík og aftur í Kirkjugarði, enda er brýnt fyrir gestum er þangað koma að virða helgi staðarins og frið þeirra sem þar hvíla. Svo var það bara þetta hefðbundna, Veðurstofa, Hlíðar, Klambrar og Hlemmur. Farið niður á Sæbraut og þá leið gegnum Miðbæinn. Jörundur bara brattur þrátt fyrir háan aldur og hékk í okkur yngri mönnum alla leiðina.

Vandræði voru með hinn nýja pott er komið var tilbaka, mökkur af baðgestum, sumum hverjum alla leið frá Seltjarnarnesi, en nýi potturinn lokaður vegna of mikils klórmagns í vatni. Það lagaðist þó fljótlega og áður en langt var liðið á hádegissamtal Pottverja streymdi hópurinn yfir í nýja pottinn og það varð rúm til þess að halda hefðbundinn ádíens á sunnudegi með dr. Baldri og Stefáni verkfræðingi, en auk þeirra var Helga Jónsdóttir frá Melum mætt í Pott.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband