28.3.2014 | 22:12
Aldeilis einstakt hlaup
Er skrifari kom á Plan sá hann prófessor Fróða á tröppum, búinn að vefja um andlit sitt klúti að hætti hryðjuverkamanna. Útundan sá hann blómasala í hávaðasamræðum við sjálfan sig. Það var skipst á ónotum, en að því búnu haldið til klefa. Þar var fyrir á fleti gamli barnakennarinn. Vel horfði um hlaup, nokkrir af vöskustu hlaupurum Hlaupasamtakanna mættir til hlaups á föstudegi. Þegar upp var staðið voru þessir mættir: próf. Fróði, gamli barnakennarinn, blómasalinn, skrifari, Ó. Gunnarsson, Rúna Hvannberg og Jörundur prentari. Glæsilegur hópur!
Blómasalinn búinn að gefa út plan um hefðbundið hlaup og ekki var gerður ágreiningur um það á slíkum degi, stilla, bjart yfir og hiti 4 stig. Gerist vart betra. Lagt upp á rólegu nótunum, skrifari ætlaði bara stutt og hægt, enda lítið búinn að hlaupa og auk þess nýstaðinn upp úr veikindum. Fljótlega drógu þeir sig frá okkur, barnakennarinn, prófessorinn og Ólafur hinn. Það var einhver rembingur í þeim. Við hin rólegri. Þó var til þess tekið hvað skrifari var sprækur, hélt sig töluvert á undan blómasala og Rúnu, að ekki sé talað um Jörund sem dróst aftur úr. Hér rifjuðust upp ummæli Fróða um 95 kg skrokkinn sem gat hlaupið svo hratt - og blómasalinn tók til sín.
Fyrst var spurningin: kemst ég út að Skítastöð? Þegar þangað var komið breyttist spurningin í fullyrðingu: ég fer alla vega út í Nauthólsvík! Svo skyldi bara skoðað hvert framhaldið yrði. Þau hin alltaf á eftir mér svo furðu vakti. Þegar komið var í Nauthólsvík var þetta ekki lengur spurning: nú yrði bara farið hefðbundið, Hlíðarfótur hefði verið niederlag. Í Hi-Lux töltu þau hin fram úr mér, enda er formið þannig þessa dagana að maður gengur brekkur. Sú forysta var þó ekki lengi að hverfa, við Kirkjugarð skildi ég þau aftur að baki.
Það var farið hefðbundið um Veðurstofu, Hlíðar og Klambra, og enn hélt skrifari forystu sinni, en hvorki sást tangur né tetur af prentaranum. Er komið var á Hlemm var ákveðið að fara um Laugaveg vegna svalrar norðanáttar sem kældi viðkvæm hjörtu. Er hér var komið leyfði ég þeim hinum að fara fram úr mér, orðinn þreyttur og fannst bara ágætt að ganga á köflum. Margt fólk á Laugavegi og ekki alveg einfalt að þreyta kapphlaup.
Gengið upp Túngötu, en hlaupið niður Hofsvallagötu, enda veisla framundan. Er komið var að Melabúð var búið að reisa stórt, hvítt tjald utan við verslunina og þar var haldið upp á grænlenska daga með hátíðlegum hætti. Þar var Pétur og þar var Frikki, ýmislegar veitingar, en einhverra hluta vegna stilltum við hlauparar okkur upp við skálina með frostpinnunum, ekki hef ég tölu á fjölda frostpinna sem runnu niður kverkar blómasalans, en Pétur hafði á orði að við værum ekkert skárri en börnin. Hér hittum við Ó. Þorsteinsson, Formann Vorn til Lífstíðar. Hann var ómissandi hluti af hátíðinni verandi framúrskarandi íbúi í Vesturbæ Lýðveldisins. Hann heilsaði öllum með virktum og rifjuð var upp ódauðleg vísbendingarspurning Einars blómasala: "Spurt er um eiganda kampavínslitaðrar jeppabifreiðar með skráningarnúmerinu R-156." Ólafur Þorsteinsson svaraði að bragði: "Jú, þetta var vel þekktur gleraugnasali í Reykjavík." Hann tilkynnti um þá ákvörðun sína að Fyrsti Föstudagur aprílmánaðar yrði að heimili hans föstudaginn 4. apríl nk. Hann lýsti fyrirhuguðum veitingum og framreiðslu þeirra.
Nú var haldið til Laugar. Einar blómasali dró fram restarnar af Cadbury´s súkkulaðinu sem Jörundur gaf honum. Hann hélt uppi vænum bita, otaði honum að skrifara og spurði: "Langar þig í?" Stakk síðan bitanum upp í sig og kjammsaði gráðuglega á honum, svo að súkkulaðitaumarnir runnu niður munnvikin. Það var haldið til Potts. Búið að draga tjöldin frá nýjum Potti í Laug Vorri og var fólk impónerað, en ekki verður fólki hleypt að honum fyrr en 11. apríl nk. Við uppgötvuðum Magnús tannlækni í Laug, sem og próf. dr. Einar Gunnar og áður en yfir lauk hafði Kári sameinast okkur í einu herlegu baði í Potti.
Þetta var einn af þessum frábæru hlaupadögum, veður gott, hlaup gott, félagsskapur framúrskarandi, Pottur góður, hver fimmaurabrandarinn af öðrum flaug og við hlógum eins og vitleysingar. Próf. Fróði hélt umræðu um áfengi í lágmarki, er líklega farinn að reskjast.
Næsti viðburður: Reykjavegsganga nk. sunnudag kl. 9:55.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.