Vorið er á næsta leiti

Hreint ótrúleg mæting í föstudagshlaup Hlaupasamtaka Lýðveldisins föstudaginn 14. marz 2014. Það voru eingöngu karlar mættir, miðaldra og síðaldra karlar. Denni af Nesi mættur af því að hann hafði heyrt fleygt orðinu "Fyrsti" í e-m pósti. Ágúst Kvaran, gamli barnakennarinn, Þ. Gunnlaugsson, Magnús tannlæknir, Ingi og skrifari. Safnast saman í Brottfararsal og málin rædd af yfirvegun. Spurt var hvar blómasalinn væri, en upplýst að hann væri vant við látinn. 

Menn höfðu sosum ekki stór plön, skrifari gerði sér vonir um að lifa af hlaup í Skítastöð og tilbaka og Denni lýsti yfir viðlíka metnaðarfullum áformum. Aðrir ætluðu hægt og stutt, prófessorinn enn slæmur í læri. Það var lagt upp í fögru veðri, 5 stiga hita, stillu, skýjuðu og þurru veðri. Veður eins og þau gerast bezt á vormánuðum. Þetta var spennandi, nú skyldi látið reyna á þrek, úthald og styrk útlima.

Hlaup fer af stað bærilega. Magnús, Þorvaldur og Ágúst eitthvað að derra sig, næstur skrifari, og þar fyrir aftan lakari hlauparar. Ótrúlegar framfarir skrifara frá síðasta miðvikudegi þegar hann gafst upp nánast um leið og hlaup hófst og menn sáu hann hverfa inn í hverfi við fyrstu beygju. Nú skyldi látið á það reyna að menn kæmust alla vega að Skítastöð - og jafnvel tilbaka líka.

Þetta gekk furðuvel, en ég hægði á mér á köflum til þess að leyfa Denna að ná mér. Ingi sneri við á óskilgreindum kafla, en það sem vakti almenna furðu var að barnakennarinn sneri við er komið var að Flugvelli, og hafði þó nýlega haft góð orð í eyru Denna um að fara Hlíðarfót. Þetta kom okkur feitlögnum, þungum og hægfara hlaupurum á óvart. Við héldum þó okkar striki og komum í Nauthólsvík um það bil er þeir hinir voru að hypja sig þaðan.

Þetta var allt á rólegu nótunum, og þess vegna gengið inn á milli, sem er ágætur kostur þegar margt þarf að skrafa. Við ræddum mikið um lestur, t.d. þegar prófessorinn lærði að lesa fram fyrir sig. hér um árið. Kláruðum flott 8 km hlaup á viðunandi tíma með mikilli brennslu og töluverðum svita. Svo var farið í Pott og setið þar góða stund. Nefndur var sá möguleiki að taka einn kaldan á Ljóninu, en ekki veit skrifari að segja frá efndum þar. Hitt er þó sönnu nær að þar sem hann er staddur á Eiðistorgi að loknum Potti rekst hann á glerfínan blómasala á jeppabifreið, nýkominn úr erfidrykkju þar sem allur matur var endurgjaldslaus, roastbeef-snittur, rækjusnittur, kökur og hvaðeina. Taldi blómasali þetta vera næga afsökun fyrir því að mæta ekki til hlaups. Hlaut hann snuprur fyrir af hálfu skrifara.

Næst verður lögbundið hlaup í Hlaupasamtökunum að morgni sunnudags, kl. 10:10. Þá verður tekin fyrir nærvera þingmanns V. Bjarnasonar í Fimmtudagspotti Vesturbæjarlaugar. Í gvuðs friði.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband