7.2.2014 | 21:20
Brennivínssvelgur
Gríðarlega efnisríkum fundi í Potti að loknu hefðbundnu Föstudagshlaupi er lokið. Mættir voru: próf. dr. Einar Gunnar Pétursson, hlaupari án hlaupaskyldu, próf. dr. Ágúst Kvaran, próf. dr. S. Ingvarsson Keldensis, Denni skransali, Flosi barnakennari, Jörundur prentari og loks hinn halti skrifari Hlaupasamtaka Vorra. Er komið var i Pott var skipst á kveðjum og þökkum fyrir einstaklega vel heppnað Þorrablót sl. föstudag að heimili þeirra Hrannar og Denna á Nesi. Menn luku lofsorði á allan undirbúning, aðbúnað, mat og drykk. Mönnum var ofarlega í huga gæði matarins sem MelabúðarKaupmaður bar inn í trogum, einkum tvær tegundir af hákarli og tvær af harðfiski, að ekki sé minnst á vel heppnað uppstú og þjöppu. Hér gall í próf. Fróða að hann hefði talið sig sleppa afar vel frá viðburðinum með 2.000 króna innborgun þegar litið var til þess magns af brennivíni sem hann hefði innbyrt. Hér brugðust menn við af skilningi og sögðu: "Já, Ágúst minn, við vitum þetta vel. Þú varst heppinn."
Rætt var um hlaup sl. mánudag þegar þeir fóru fetið saman, próf. dr. Fróði og Einar blómasali. Einar er með böggum hildar yfir þyngd skrifara þessi misserin, sem ku slaga í 95 kg og er farið að daðra við desítonnið. Þannig sat blómasalinn eftir vigt í gærmorgun á bekk í inniklefa í Vesturbæjarlaug, frávita af geðshræringu og tautaði með sjálfum sér: "95 kíló! 95 kíló!" En í hlaupinu á mánudaginn er var varð prófessornum að orði að það væri merkilegt að maðurinn gæti hlaupið svona hratt verandi 95 kg. Blómasalinn misskildi þessi ummæli á þann veg að þau beindust að sér og varð harla glaður. En prófessorinn var hér vissulega að lýsa aðdáun sinni á skrifara Samtaka Vorra, sem lætur ekki tímabundnar breytingar í líkamsvigt koma í veg fyrir að hreyfa sig hratt.
Nema hvað, eðlilega varð mönnum hugsað til Ástsæls Forseta Vors þar sem hann eykur hróður Fósturjarðarinnar í Bjarmalandi og hittir stórmenni. Nú fer að síga á seinni hlutann hjá okkar manni og var farið að velta fyrir sér framhaldinu. Það var spurt hvort raunhæft væri að tilnefna traustan KRing, Boga Ágústsson, næst þegar kosið verður, en það kom fýlusvipur á viðstadda og mönnum leist illa á hugmyndina. Skrifari benti á þá augljósu staðreynd að æskilegt væri að nýr forseti væri vanur utanferðamaður og ekki væri verra að hann héti Ólafur. Ef hann héti t.d. Ólafur Grétar væri ekki svo erfitt fyrir þjóðina að læra nafnið á nýjum forseta.
Einhverjar vöfflur voru á mönnum við þessa hugmynd. En þegar upplýst var að nýtt forsetaefni myndi gera Ó. Þorsteinsson, Formann Vorn til Lífstíðar og persónufróðasta mann Lýðveldisins, að formanni Orðunefndar og í framhaldinu að festa orðu á brjóst helstu drengjanna í Hlaupasamtökunum, þá glaðnaði yfir selskapnum og menn sáu strax í hendi sér að hér væri harla góð og hagnýt hugmynd á ferð. Sumir höfðu þó áhyggjur af viðbrögðum þingmanns Samtakanna úr Garðabænum, en forsetaefnið benti á að næg væru embættin sem mætti nýta til þess að friða menn, t.d. Þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.
Nú var baðast enn um sinn, í Pott bættist Sveinn Margeirsson og við tók fjörug umræða um málefni háskóla og rjúpnaveiðar. Denni rifjaði upp veiðar á heiðum uppi þar sem Sveinn og Björn bróðir hans unnu afrek ungir að árum, en Denni engin.
Öndvegispottur sem aldregi fyrr, mönnun með eindæmum, sól fer hækkandi og veður batnandi. Nú fer skrifara að batna ökklameiðslin, en fyrst kemur ein Brusselferð sem Jörundur borgar, en eftir það má búast við því að skrifari mætti beittur til hlaupa á ný. Í gvuðs friði, skrifari.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.