Kári snýr aftur

Á hlýju en myrku nóvembereftirmiðdegi mættu eftirfarandi til hefðbundins hlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins: Magnús tannlæknir, Flosi, dr. Jóhanna, Heiðar, Snorri, Hjálmar, Tobba og skrifari. Ég spurði Steinunni hvort hún hefði séð Einar "sprett". "Já, hann er kominn og farinn." "Ha?" hváði skrifari. "Já, kominn og farinn, hann sagðist vera með einhverja pest, kom og fór fyrir allnokkru síðan." Ja, sér er nú hver afsökunin fyrir því að mæta ekki í hlaup! 

Allt kyrrt í Útiklefa og skrifari mættur tímanlega í Brottfararsal. Svo kom Magnús og við spjölluðum góða stund um ráðstefnur í útlöndum og um morðið á Kennedy. Á brottfarartíma var stigið út á stétt og tekið veður. Hiti 8 gráður, stytt upp eftir hellidembu fyrr um daginn, logn, en fjári dimmt. Nú gildir að vera í endurskinsvestum og vera vel sýnilegur. Lagt upp og stefnan sett á Ægisíðuna, nokkuð hefðbundið fyrir mánudag. Ég held að flestir hafi verið stemmdir fyrir stutt. 

Magnús sagði: "Óli minn, við förum bara hægt." Og það byrjaði nógu efnilega, þau hin voru fljótlega byrjuð að derra sig, en við Flosi, Tobba og Maggi vorum róleg og fórum skynsamlega af stað, þó fullhratt fyrir feitlagna hlaupara sem eru í endurkomu.

Enda fór það svo að skrifari missti fljótlega af þeim hinum og vissi því ekki hvert umræðuefnið var og hefur í sjálfu sér ekki frá neinu að segja. Það voru vissulega vonbrigði að Magnús skyldi svo fljótt gleyma loforði um rólegt hlaup og skilja vin sinn eftir. Hér gleymdist hið forna kjörorð Samtaka Vorra: Hér er enginn skilinn eftir!

Nú er orðið dimmt mjög af degi er hlaup stendur yfir og jafnvel svo dimmt á óupplýstri Ægisíðunni og er ástæða til að hafa áhyggjur af því að rekast á annað fólk í myrkrinu. Það var kjagað áfram í einsemd alla leið inn í Nauthólsvík, gengið upp brekkuna inn á Hlíðarfótinn og hlaup tekið upp af nýju. Hér var skrifari orðinn heitur og átti ekki í vandræðum með að ljúka glæsilegu hlaupi með sóma. Félagar mínir voru þegar komnir á Plan er komið var tilbaka og það var teygt og rætt um íslenskar nafnahefðir. Kári var mættur á Plan og stefndi á hlaup. Hlaupið það stóð þó ekki lengi, því að er Kári var kominn að Neskirkju varð hann fyrir opinberun og ákvað að snúa til Laugar á ný og eiga gæðastund með félögum sínum. 

Við tók klukkutímaseta í potti og mætti Helmut óhlaupinn í pott auk hlaupara og kunni ekki að skammast sín. Fljótlega barst talið að mat, drykk og skemmtunum. Fram var flutt formleg bón um að skrifari gengist fyrir um að finna veitingastað er væri fús til að taka við félögum Hlaupasamtakanna og bjóða upp á mat af einhverju tagi, ekki endilega julefrukost. Nú verður sem sagt farið að finna heppilegan stað sem tæki við okkur í byrjun desember þegar hann Ágúst okkar og frú Ólöf eru komin heim frá Kýpur.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband