21.10.2013 | 22:05
Hausthlaup
Eftir tvo velheppnaða hlaupadaga, fyrst með Denna af Nesi sl. föstudag, og svo með frænda mínum og vini, Ó. Þorsteinssyni, sl. sunnudag, var tímabært að fara að spreyta sig með alvörufólki. Það var kominn mánudagur og engar smákanónur mættar til hlaupa í Brottfararsal. Fyrsta skal nefna dr. Jóhönnu sem er á leið í haustmaraþon á laugardag, Heiðar sömuleiðis maraþonefni, Ósk, Baldur, og þar á eftir síðri hlauparar, Þorvaldur, Jörundur, Tobba, Kári og skrifari. Eftir hlaup kom í ljós draugasaga um tannlækninn, meira um það síðar.
Það var svalt í veðri, enda vetur í aðsigi og hlauparar farnir að klæða sig betur en áður. Nú er það ekki lengur svo að einhver "leiðtogi" standi á Plani og gargi fyrirmæli, hersingin silast einfaldlega af stað og e-r forystukind, oftar enn ekki Jóhanna, leiðir okkur áfram skynsamlegustu leiðina miðað við veðurfar og nennu hlaupara. Þannig var það í dag, enginn áhugi á Nesi, en stefnan sett beinustu leið niður á Ægisíðu og svo austur úr.
Sem fyrr segir eru tilteknir hlauparar á leið í maraþon á laugardag og því ekki langt í boði í dag, mesta lagi 12 km á rólegu tempói. Hópurinn skiptist fljótlega í tvennt, ef ekki þrennt og þarf ekki að fara nánar út í þá sálma. Aftari hópurinn var gróflega skipaður Þorvaldi, Tobbu, skrifara, Kára og Jörundi. Við fórum þetta af skynseminni, en Jörundur er enn að glíma við afleiðingarnar af byltunni með lambhrútinn í Norðurárdal.
Sumir fullyrða að hlaupin seinki innlögn og slái Allanum á frest. Skrifari er farinn að fyllast efasemdum um þetta resept fyrir heilbrigði og nefndi fjölmörg dæmi þess á hlaupum að minni félaga væri ekki eins óbrigðult og þeir héldu sjálfir. En þó verður því ekki móti mælt að endurtekin hlaup efla þrek og auka úthald og kom það í ljós í hlaupi dagsins, þar sem skrifari sýndi tilþrif eins og fjögurra vetra foli. Sama verður því miður ekki sagt um ónefnd athafnaskáld í hópi vorum, skáld sem yrkja um blóm og blessun kapítalismans og selja ónýtt skran. Menn sem dvelja langdvölum í útlöndum og graðka í sig erlendar steikur og svolgra í sig útþynntan mjöð á uppsprengdu verði. Þeirra dómur bíður nk. fimmtudags.
Jæja, hlaupið gengur bara vel fyrir sig, gott tempó í gangi og hlauparar sprækir. Spurt var hvert skyldi haldið. Skrifari gaf einföld fyrirmæli: "Suðurhlíð." Þeim var hlýtt, þ.e. af Tobbu og Þorvaldi, þau fylgdu skrifara áfram í stað þess að beygja af við Hlíðarfót, af Jörundi og Kára var allt tíðindalaust. Þetta var einstaklega áreynslulítið hjá okkur, fyrst upp Flanir, og svo niður hjá Kirkjugarði og út að Kringlumýrarbraut. Hér hefði einhver búist við stoppi, en það var ekki í boði, við héldum áfram upp Suðurhlíðina án þess að stoppa. Að vísu skal viðurkennt að hér þurfti skrifari að beita hörðu til þess að píska þau hin áfram, en þeim til hróss má segja að þau gáfust ekki upp, heldur héldu áfram alla leið upp að Perlu, blásandi eins og fýsibelgir.
Þá versnaði í því vegna þess að þau stoppuðu ekki þar, heldur steyptu sér niður Stokk á fullri ferð, bæði létt á sér, en skrifari hikaði við að láta vaða niðureftir, enda var ekki víst hvaða afleiðingar það gæti haft ef þessi þungi massi lenti á fyrirstöðu meðan áhættan var minni með létta líkami eins og þeirra hinna. Hér skildi með okkur og varð ég nokkru á eftir þeim á bakaleiðinni. En það dró ekki úr kraftinum í hlaupinu og var leggurinn til Laugar tekinn með áhlaupi. Komið tilbaka í rökkri og farið inn til að teygja. Um sama leyti komu þau hin tilbaka úr sínu 12 km hlaupi og heyrðist tölunni "4:50" fleygt um tempó dagsins.
Jæja, sem skrifari er að koma tilbaka rekst hann í fangið á Magnúsi Júlíusi flóttalegum. Taldi hann sig hafa gripið strákinn Tuma við að skjóta sér undan skyldum sínum. Magnús brást hins vegar vel við og kvaðst hafa hlaupið einn og sjálfur og farið af stað 10 mín. á undan okkur hinum. Hann hefði verið slæmur í mjöðm (og benti á lærið á sér) og búist við að við myndum ná honum. Hins vegar hefði mjöðmin (benti aftur á lærið á sér) bara virkað vel og hann hefði hlaupið Hlíðarfót með miklum ágætum.
Nú eru Hlaupasamtökin farin að líkjast einhverju. Hlauparar safnast aftur saman í Móttökusal að loknu hlaupi og bera saman bækur sínar meðan þeir teygja. Svo er setið í Potti og sagðar sögur, en blátt bann er lagt við pólutískum þrætum, en þó er heimilt að ræða mataruppskriftir. Menn ræddu af innsæi um aðgerðir lögreglu í Gálgahrauni í dag og hvort þeir hefðu flutt Ómar burtu í handjárnum. Jörundur rifjaði upp samskipti sín við réttvísina í verkalýðs- og þjóðfrelsisbaráttu sjöunda áratugarins og endaði ekki alltaf vel.
Næsta hlaup: miðvikudag, Þriggjabrúa, ekki styttra.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.