Hrokkelsin flatmaga í heita pottinum

Vesturbærinn er menningarstaður. Þar iðka menn ljóðlist. Þekktast ljóða í Vesturbænum er hetjukvæði þjóðskáldsins Þ. Eldjárns um félaga Hlaupasamtakanna, sem er glúnti og er súnginn reglulega á samkomum Samtaka Vorra við gítarundirleik gamla barnakennarans. Nú hefur ný vonarstjarna bæst í hóp ungskálda Vesturbæjarins og heitir Gunnar Harðarson. Ljóð eftir hann helgað Hlaupasamtökunum getur að líta í Örlygshöfn og er hlaupurum þar líkt við hrokkelsin í Skerjafirðinum - og væri vart hægt að finna heppilegri samlíkingu, en nú verður vikið að hlaupi dagsins. 

Sem skrifari mætir í Brottfararsal er Benzinn mættur alvitlaus og þegar búinn að ná Steinunni upp á háaséið og boðaði ekki gott um framhaldið. Það var haldið í Útiklefa, en þar voru óvenju fáir snagar lausir, bera mátti kennsl á reyfið af Óðagotsættinni, en að öðru leyti virtust aðallega skillitlir aðkomumenn hanga á snögum. Skrifari varð að fara á snaga Helmuts, og uppskar lítið þakklæti, Benzinn fór á sinn snaga, barnakennarinn mætti litlu síðar og fann sér smugu.

Í Brottfararsal voru fyrir Magnús Júlíus, dr. Jóhanna, Kári, Tobba, Rúna, og svo kom Heiðar skömmu áður en haldið var af stað. Unga og spræka fólkið getur jafnan stært sig af löngum hlaupum um helgar, en við hóglífismenn getum einungis rifjað upp veislur helgarinnar, hvað var borðað, hvað var drukkið. Blómasalinn kom síðastur hlaupara með símann límdan við kinnina og virtist vera að ljúka viðskiptum dagsins á ensku. Dreif sig í skiptaklefa og náði að koma sér í gírið á undraverðum tíma. Ekki staldrað lengi við á Plani en drifið sig af stað. Gomez mætti okkur og uppskar fagnaðarlæti og aðdáun. Upp á Víðirmel og út á Suðurgötu, skrifari bara sprækur.

Grunnur að Húsi íslenskra fræða stendur opinn og verður hugsanlega nýttur undir skautasvell í vetur og ekki seinna vænna því  að menn eru nostalgískir eftir skautasvellinu á Melavellinum þar sem rómantíkin þreifst í merlandi tungsljósi hér forðum daga. Ekki meira um það! Það var eðlilega talað um mat á leiðinni út Suðurgötuna, skrifari í fylgd Tobbu og Rúnu og svo dúkkaði blómasali upp, fyrir aftan okkur voru Maggi og Kári - en þau hin fyrir framan okkur. Blómasalinn færði í tal Cadbury´s súkkulaðið sem hann fékk að gjöf frá skrifara og var enn ekki að fullu uppétið. Hann lýsti áhyggjum af stöðu kakómála í heiminum, en skortur ku vera framundan á kakó. Rúna fullyrti að kakóskorturinn væri að miklu leyti blómasalanum að kenna og mætti líkja súkkulaðineyslu hans við benzíneyðslu mannkyns, það yrði að hemja hana ef takast ætti að skapa kakóræktun sjálfbær skilyrði. 

Jæja, þarna líðum við áfram í algleymi suður í Skerjafjörð og þau hin taka ekki eftir því að skrifari er farinn fram úr þeim, sprækur og hress á mánudegi. Um leið hefst að baki honum baktalið og illmælgin. "Hann er að þessu til að léttast, hann óttast niðurstöður fimmtudagsins," heyrir skrifari að baki sér. Hann slóst í för með Þorvaldi og saman þreyttu þeir ágætt hlaup tilbaka frá Skítastöð og út að Hofsvallagötu og svo áfram á Nes. Mættum gömlum félögum af Nesi, TKS, á kunnuglegum slóðum, þ.m.t. gömlum skólasystrum skrifara, Jóhönnu og Ingibjörgu. Ekki var farið að öllu leyti á Nes, heldur látið nægja að fara út að Kaplaskjólsvegi og þá leið tilbaka. Blómasalinn og Tobba héldu áfram, en við hin skynsamari héldum til Laugar.

Pottur var aldeilis hreint magnaður, enda rjóminn af Hlaupasamtökunum eins og við þekkjum þau nú viðstaddur. Sem fyrr sagði var helsta skemmtun Pottverja að lesa ljóð Gunnars Harðarsonar um Hlaupasamtökin þar sem sagði að þeir liðu eftir Ægisíðunni og enduðu í Potti Vesturbæjarlaugar og flatmöguðu þar eins og dösuð hrokkelsi. Falleg samlíking það og við hæfi að fyrstu lesendur væru skrifari, Kári og blómasalinn. Í gvuðs friði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband