8.9.2013 | 17:35
Óskiljanlegt
Það er fullkomlega óskiljanlegt að menn skuli frekar vilja liggja áfram undir fiðri en að lyfta höfði frá kodda, íklæðast hlaupafatnaði, reima á sig hlaupaskó og taka létt skeið um stíga í glaðra sveina hópi. Altént var slík gæðastund í boði á þessum morgni þegar þeir Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Jörundur og Ólafur skrifari söfnuðust saman til hlaups frá Vesturbæjarlaug kl.10:10. Veður stillt, milt og ljúft eins og fara gerir á sunnudagsmorgni. Þeir félagar voru kristilega þenkjandi og fullir velvildar, enda betra að hlaupa á stígum úti og hugsa um gvuð en að sitja á kirkjubekk með samviskubit og hugsa um hlaup.
Jörundur að koma tilbaka eftir veikindi sem tóku toll, en hann allur að braggast og bætir við hlaupnar vegalengdir. Svikalævi hékk í lofti og var Magnús eitthvað grunsamlegur, enda ákváðum við frændur og nafnar að fylgjast vel með honum ef til þess kæmi að hann teldi sig eiga erindi á mikilvægan Kirkjuráðsfund í miðju hlaupi. En í ljósi þess að hér voru ekki hröðustu hlauparar Samtaka Vorra á ferð ætti ekki að koma neinum á óvart þótt við legðum upp á afar rólegum nótum.
Félagar okkar í Brúarhlaupi stóðu sig vel, Magga vann sinn flokk, og þeir S. Ingvarsson og G. Löve voru í þriðja sæti í sínum flokkum, P. Einarsson í fimmta. Svo var hún Rúna okkar líka á ferðinni. Við erum stolt af svo ágætum hlaupurum sem bera hróður Samtaka Vorra alla leið austur í Flóa, sem er heimasveit okkar Flosa.
Í hlaupi dagsins var eðlilega rætt um landsleikinn við Sviss og var það samdóma álit viðstaddra að komin væru tímamót í íslenskri knattspyrnusögu. Íslenska karlalandsliðið er nú komið á þann sálræna stað í tilverunni sem landsliðið í handknattleik var löngu komið: búið að hrista af sér minnimáttarkenndina og heimóttarskapinn gagnvart öðrum löndum/liðum, sýnir andstæðingnum enga virðingu, og gerir einfaldlega það sem á ekki að vera hægt að gera samkvæmt knattspyrnuspekúlöntum. Enda eru myndir úr leiknum sýndar á íþróttarásum um allan heim. Við vorum líka ánægðir með að fá Eið Smára inn á og sjá hvernig hann náði að líma liðið saman, ekki ósvipað þeim góðu mönnum sem límdu klerkinn saman í kvæði Megasar: "En þeir límd´ann saman/og þótti það gaman/klerki fannst gamanið grátt."
Jæja, þarna höldum við sumsé áfram á rólegu nótunum, og stoppuðum ef tilefni var til. Fáir voru á ferð og því lítið um að þyrfti að stöðva til þess að taka fólk tali. Það var farið í Nauthólsvík og gengið. Ó. Þorsteinsson sagði okkur frá spjalli sínu við efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar: "Jæja, Þráinn minn, ertu byrjaður að reikna?" Svarað var: "Það er ekkert að reikna." Þá furðuðu menn sig á fótabúnaði forsætisráðherra á fundi með Óbama, var virkilega ekki hægt að senda aðstoðarmanninn út í búð til þess að kaupa svolítið rýmri blankskó? Einnig höfðu menn áhyggjur af holdafari mannsins, en feitlagnir menn í hans stöðu eru einkar ótrúverðugir. Og við hlið flottra einstaklinga eins og Obama, Reinfeldt, Stoltenberg og Helle hinnar dönsku, þá er eins og bakarasveinninn hafi óvart sloppið inn í myndatökuna!
Við áfram í Kirkjugarð og upp úr, Veðurstofa, Hlíðar, Klambrar - þar var gengið. Aldrei féll niður ræðuhald, þegar einu viðfangsefni höfðu verið gerð skil var það næsta tekið fyrir. Það var rætt um málverk og verðlagningu þeirra, sérfræðiþekkingu á málverkum og fleira í þeim dúr. Svo vorum við komnir niður á Sæbraut og dóluðum þetta vestur úr. Ákveðið var að fara áður ófarnar leiðir á hlaupum, um Vesturgötu, Ránargötu, hjá Hlíðarhúsum, Brunnstíg og upp Bræðraborgarstíg. Þar var skoðuð Bræðraborg, hús byggt af tveimur bræðrum úr Grímsnesi árið 1880 og gatan heitir eftir. Svo var staðnæmst við nr. 18, nýmálaða glæsibyggingu skrifara, en þá stakk í augun hve garðurinn var ljótur eftir rask iðnaðarmanna.
Stefnan sett á Laug, Laufey Steingrímsdóttir stöðvuð við gönguljós á Hringbraut og hún innt skýringa á því hvers vegna hún hefði ekki hafið hlaup með Samtökum Vorum.
Pottur mannaður hinu ágætasta fólki: frú Helga Jónsdóttir Flygenring Zoega og Gröndal, Stefán maður hennar, Mímir, dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Margrét Melaskólakennari og svo gamli barnaskólakennarinn óhlaupinn. Eins og ævinlega fór fram ákveðin endurvinnsla á umræðuefnum hlaupsins, leikurinn, efnahagsástandið, málverkin, en svo fór Mímir á nostalgíuflug og það var farið að rifja upp löngu dáið fólk á Laufásveginum.
Næst hlaupið: mánudag kl. 17:30. Vel mætt.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.