4.9.2013 | 20:46
Hlaupið á fögrum haustdegi
Athygli vakti er komið var í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar í dag hversu margir hlauparar kusu að vera fjarverandi. Nefna má Einar blómasala, Flosa, Helmut, Kalla o.fl. o.fl. Þessir voru hins vegar mættir: dr. Jóhanna, Gummi Löve, Ólafur Gunnarsson, Ólafur skrifari, Maggi, Þorvaldur, Hjálmar og Benzinn. Við Maggi vorum sáttir við Hlíðarfót, en Bjarni heimtaði Þriggjabrúa, upptendraður af e-u töfraefni sem hreinsar iður hans fullkomlega. Svo heyrðist skrafað um Kársnes með 10 km tempói. Það voru okkar fremstu hlauparar sem hér véluðu um og munu stefna á maraþon í haust.
Veður fallegt, sól, stillt, hiti 10 gráður eða þar um bil. Fórum rólega af stað og við Maggi á eftir þeim hinum. Þau voru fljót að setja góða vegalengd á milli okkar, en okkur félögum var alveg sama, það var fyrir öllu að vera kominn út á stígana og á hreyfingu. Það var heitt á Ægisíðu og spurning hvort þörf væri að fara úr yfirhöfn. Ekki reyndi á það því að er komið var í Nauthólsvík kólnaði þegar okkur mætti norðan andvari. Gengið um stund og málin rædd.
Svo var hlaupið af stað aftur og farið austan við Valsvöll og svo vestur úr á rólegu tölti. Við sáum Benzinn, Ólaf hinn og Þorvald fara Hagamelinn og höfðu greinilega heykst á að fara Þriggjabrúa. Þeir enduðu með því að stytta en komu þó við í Laufási. Að sögn var Benzinn að mestu rólegur, nema þegar rætt var um flugvöllinn. En þá kom það sér vel að Ólafur var eða þóttist vera honum sammála svo að ekki kom til vinslita.
Góður pottur á eftir með þátttöku Helmuts og dr. Einars Gunnars. En blómasalinn var týndur og tröllum sýndur þrátt fyrir yfirlýsingar.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.