Vinátta

Þar sem skrifari gekk í hægðum sínum eftir Öldugötu til hádegisverðar að setri sínu við Bræðraborgarstíg rennir svört glæsibifreið upp að honum og nýkjörinn þingmaður Lýðveldisins ávarpar hann: "Á hvaða ferð eruð þér?" Skrifari gerði grein fyrir erindi sínu, en var jafnskjótt inntur eftir uppruna yfirhafnarinnar sem hann var í. "Er þetta Barbour?" spurði þingmaðurinn. "Það veit ég andskotann ekki," sagði skrifari, "mér er eiginlega alveg sama". Síðan tóku við stimpingar um fatnað sem hæfi herramönnum og merkjaóðum Vesturbæingum. Þingmaðurinn heimtaði að skrifari færi úr frakkanum og sýndi honum merkin. Skrifari hlýddi góðfúslega, enda er brýnt að löggjafarvald og framkvæmdavald vinni vel saman. Eftir að hafa skoðað frakka skrifara í krók og kring grýtti þingmaðurinn frakkanum í eigandann með þessum orðum: "Þetta er drasl!" 

Loks varð stutt samtal um vináttu og samskipti og bað hann fyrir kveðju til "fyrrverandi vina" sinna. 

Nú er frá því að segja að skrifari leggur leið sína sem oftar í Vesturbæjarlaug síðdegis hafandi þrælað allan daginn í Stjórnarráðinu. Þar verður á vegi hans prófessor Fróði sem á í fullu fangi með að hafa stjórn á ökutæki sínu og virðist honum vera um megn að stjórna svo stórri vél. Þar sem skrifari stendur á Plani heyrir hann klirra í ótölulegum fjölda vínflaskna í skotti bílsins og furðar sig á því að svo heilsusamur maður skuli láta slíkt vitnast að hann mæti til hlaupa um miðja viku með bílskottið fullt af áfengi. Prófessorinn var forhertur og kvaðst ætla að skila þessum birgðum, til þess eins að kaupa miklu dýrari og betri veigar.

Jæja, þar sem gengið er til Brottfararsalar innir prófessorinn skrifara eftir heilsu. Jú, það er setið við sama keipinn og beðið eftir bata. "Já," sagði prófessorinn, "þetta á eftir að taka sjö mánuði, og eftir það kemur ábyggilega eitthvert nýtt mein upp."

With friends like these... Það bætti heilsu skrifara að hitta Benzinn og son við Hamborgarabúlluna að loknum kvöldverði og eiga við þá stutt spjall. Sem betur fer eru enn til heilbrigðir menn í hópi vorum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband