Hvað er tíðast?

Svo ávarpar gjarnan Formaður Vor til Lífstíðar, frændi og vinur skrifara, Ó. Þorsteinsson, mannfagnaði þar sem þeir verða: "Hvað er tíðast?" M.ö.o. hvað er í fréttum. Nú hefur skrifari ekki lagt inn pistla á vef Samtaka Vorra um nokkurt skeið og kemur ekki til af góðu: hann hefur verið í meiðslum. Engu að síður er vert að minnast þess að Hlaupasamtökin héldu árlega árshátíð sína í Viðey 11. maí sl. Á þriðja tug þátttakenda og Þorvaldur með ómegðina, en Bjössi kokkur kokkaði og Húnninn uppvartaði og þjónaði til borðs. 

Örlygur Hálfdánarson hélt hefðbundna kynningu í Viðeyjarkirkju, við minnismerki um Skúla, við Keleríislaut og í barnaskóla. Það blés og rigndi og var kalt. Því var kynningargangan venju fremur stutt. Komið til Tanks um 18:00. Þar hafði einvalalið með Björn í broddi fylkingar undirbúið veizlu. En áður en setzt var að borðum hélt skrifari stutt ávarp. Þá tók við Formaður til Lífstíðar og loks fékk próf. dr. Baldur Símonarson orðið og bauð upp á spurningakeppni. Ekki þarf að koma neinum á óvart að skrifari vann keppnina ásamt með frú Helgu Jónsdóttur frá Melum, þrjú rétt svör af fimm mögulegum.

Hófst þá loks borðhald. Stóð það yfir með ávörpum, söng og mikilli kurteisi fram undir kl. 22:00 þegar tímabært þótti að halda tilbaka. Einstök skemmtun og fór fram með mikilli hófsemd og stillingu. Gengið til báts og siglt heim.

Þá er komið að meiðslum skrifara. Hann sumsé bólgnaði upp á kné og var ekki mönnum sinnandi og fékk sig ekki hrært í nærfellt heila viku. Þegar bólgan hafði hjaðnað var í öryggisskyni haldið til læknis og leitað álits. Áður hafði dr. Vigfús Magnússon tjáð sig um bólguna og sagt að hnéð væri fullt af vatni og skrifari ætti ekki að vera að þessum hlaupum. Mannslíkaminn væri ekki gerður fyrir hlaup. Nú var leitað álits starfandi læknis. Skrifari heilsaði doktornum innilega og lýsti vanda sínum svo: "Ég er hlaupari og lenti í meiðslum á hné..." Ekki komst skrifari lengra þegar doktorinn greip frammí fyrir honum og sagði: "Hættu þá að hlaupa! Mannslíkaminn er ekki gerður fyrir hlaup. Auk þess ertu alltof feitur til þess að vera að leggja þetta á skrokkinn."

Svona kaldar kveðjur frá hinni medíkölsku stétt eru náttúrlega ekki uppbyggjandi. En skrifari mun hvíla enn um sinn, en heitir því að hefja hlaup jafnskjótt og allur verkur er horfinn úr hné - og fáein kíló eru frá líkam hans.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband