14.4.2013 | 20:26
Fáheyrð forherðing
Hlaupasamtök Lýðveldisins eru menningarsamtök. Þau eru þekkingarsamfélag. Þar safnast saman helztu sérfræðingar landsins á hverju sviði og deila þekkingu sinni meðan þreytt er hlaup um götur og stíga, ellegar að hlaupi loknu þegar setzt er í Pott. Þá bætast gjarnan við hlauparar án hlaupaskyldu, en með rannsóknir og dreifingu þekkingar á sinni könnu. Sunnudagar eru yfirleitt bitastæðari en aðrir dagar þegar litið er til þessa markmiðs í starfi Samtaka Vorra. Því kom það á óvart í dag að menn létu sig vanta. Mættir til hlaupa: Ó. Þorsteinsson, Magnús, Þorvaldur, skrifari og Maggie. Athugulir menn tóku þó eftir því að reyfið af ónefndum barnakennara hékk uppi í Útiklefa, en sjálfur lýsti hann með fjarveru sinni. Og ekki mætti blómasalinn eða Jörundur. Svona forherðing á slíkum drottins degi er óskiljanleg.
Jæja, skrifari var eiginlega ekki að nenna þessu. En lét sig hafa það. Hvattur áfram af drengjum góðum og félögum. Sunnudagar eru einstakir að hlaupum. Og vitanlega ræddum við um hann Vilhjálm okkar sem tók móti Formanni sínum í sveitinni sinni, Garðahreppi, á fundi í FG á laugardaginn, og var þar sveitarhöfðingi, klappaði manna mest og strauk Formanni sínum að auki. Við vorum ákaflega stoltir af honum Vilhjálmi okkar og töldum góðar líkur á að hann myndi fljúga inn á þing eftir slíka frammistöðu.
Veðrið var bærilegra en í gær, eilítið hlýrra og ekki mikill vindur. Þó varð maður var við norðangjólu við Flugvöll og aftur þegar komið var á opin svæði eins og í Hlíðunum. Umræðuefnin tengdust mjög kosningum, og enda hafði J. Bjarnason tafið brottför hlaups í Brottfararsal með orðavaðli sem skrifari skildi ekki, en þeir hinir hlýddu dolfallnir á. Menn telja leikrit Sjálfstæðisflokks ekki til þess falllið að auka fylgi flokksins, en spurt var hvort Hanna Birna myndi eiga framtíð fyrir sér í pólutík eftir innlegg Eimreiðarinnar.
Það voru þyngsli og það var slappleiki. En áfram héldum við þó. Maggie með myndavélina á lofti og tók myndir af hópnum við margvísleg skilyrði. Svo tók Þorvaldur við ljósmyndarahlutverkinu og smellti af hægri vinstri, en ekki veit ég hversu mikið af því var nothæft. Kemur í ljós. Jæja, það er komið í Nauthólsvík og lagt til nýtt mótív: við drengirnir fyrir framan skúra Siglingaklúbbsins og Maggi að baki okkur að tæma skinnsokkinn. Það er dýpt í svona hugmyndum. Gengið og sagðar sögur. Svo áfram í Kirkjugarð.
Kirkjugarðurinn er helgur reitur. Þar er gengið og talað hljóðlega. Því brá ritara er hann sá einn félaga sinn standa álengdar við eitt leiðið líkt og hann væri að létta á sér. En sem betur fer var það missýn, enda hefði slíkt framferði verið fyrir neðan sygekassegrænsen.
Jæja, það var Veðurstofa og Klambrar. Hér vorum við frændur og nafnar orðnir einir og aftur úr, þau hin fóru hratt áfram og virtu ekki hefðbundnar reglur um stopp og göngur á Rauðarárstig. Þetta var allt í lagi. Við höfðum næg viðfangsefni að ræða um, m.a. var sagt frá hátíðarsamkomu á Þjóðminjasafni Íslands sl. föstudag þar sem Þór Magnússon var heiðraður vegna útkomu merkilegrar bókar hans um silfursmíð á Íslandi. Einnig var staðfest að Holtavörðuheiðarhlaup verður þreytt að jöfnu báðu milli Laugavegshlaups og Reykjavíkurmaraþons. Ástæða til að taka helgina frá og fara að hlakka til.
Fórum Laugaveginn að þessu sinni, bjuggumst við þræsingi á Sæbraut. Töldum ekki laus búðarpláss, en skoðuðum Harris Tweed hjá Kormáki og Skildi, horfðum á fillibittur fara inn á bari sem voru að opna og sáum erlenda ferðamenn leita að stöðum til þess að fá sér kaffi á. Miðbær, Kaffi París og Túngata. Ó. Þorsteinsson kvaðst vera tilbúinn með vísbendingaspurningar fyrir Baldur.
Vel mætt í Pott, bæði dr. Einar Gunnar og dr. Baldur, Helga Jónsdóttir Zoega Gröndal og Flygenring, Stefán maður hennar, dr. Mímir, auk hlaupara. Vísbendingaspurningar fjölluðu um útför Thatchers. Í ljós kom að það vantaði vísbendingarnar í vísbendingaspurningarnar, svo að þær voru dæmdar spurningar eingöngu. Fullyrt var: þegar kistan fer framhjá Big Ben nk. miðvikudag verður klukkum hring 87 sinnum. Spurt var: hvenær var það gert síðast og hversu oft var hringt? Rétt svar: við útför Winstons Churchills 1965 og klukkum var hringt 90 sinnum. Þá var spurt: hver mun flytja inngangserindið í jarðarförðinni og hvað gerir sú manneskja? Baldur stóð á gati. Rétt svar: Amanda, dótturdóttir Thatchers, tvítug og læknanemi í í USA. Loks var spurt: hvaða sálmar verða sungnir? Þetta vissi enginn og ekki heldur Ó. Þorsteinsson, svo að botninn féll eiginlega úr spurningakeppninni, sem eins og menn sjá, innihélt ekki eiginlegar vísbendingaspurningar. Enda mátti Ólafur Þorsteinsson þola þungar ákúrur af hálfu Baldurs fyrir að sigla undir fölsku flaggi, vera ekki með eiginlegar vísbendingaspurningar og ekki vita neitt sjálfur.
Nú tók Baldur við með eigin spurningakeppni og spurði margra snúinna spurninga um menn og viðburði og var frændi minn oft með rétt svör á takteinum svo að aðdáun vakti. Neyddist Baldur til að viðurkenna að Formaður Vor til Lífstíðar vissi eitt og annað. Tal barst að árshátíð þar sem frétzt hefur að Kokkur Vor muni sjá um matreiðslu. Fljótlega verður gefinn út instrúx um verð og greiðslutilhögun.
Í gvuðs friði.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Athugasemdir
Var viðstaddur á lifandi menningarhátíð ásamt ráðherra þínum, ritari góður. Hljóp fyrr um morguninn. Helga frá Melum til vitnis.
Jörundur (IP-tala skráð) 14.4.2013 kl. 22:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.