Mannval

Þegar skrifari sá Maggie í Brottfararsal, sagði hann: "Ég hef ekki séð þig lengi!" Hún svaraði: "Það er líklega vegna þess að þú hefur ekki sést lengi sjálfur. Ég hljóp t.d. í gær, sunnudag." Aðrir hlauparar tóku undir þetta hjá Maggie og gerðu ósmekklegan aðsúg að skrifara. Prófessor Fróði vildi skipuleggja hlaup í Viðey og árshátíð í framhaldinu. Skrifari spurði um það smáatriði að þrífa sig eftir hlaupið. "Hva! Er ekki vatn í Viðey? Það er vatnstankur í eynni!" Hann vissi greinilega ekki (eða mundi) að seinasta árshátíð var haldin í þessum sama vatnstanki.

En hvað sem öðru líður var gríðarlegt mannval í Brottfararsal við upphaf hlaups í dag. Þarna mátti bera kennsl á gamla hlaupara eins og Jörund, Ágúst, Flosa, Kalla, Magga, Helmut, Þorvald og Benzinn. Einnig yngri hlaupara eins og Einar blómafræðing, Ólaf skrifara og Ólaf heilbrigða. Og svo allir ofurhlaupararnir: dr. Jóhanna, Pétur Einars, Maggie, Ósk, Hjálmar - en Gummi Löve var veikur. Hann hrópaði á okkur út um glugga eftir að hópurinn var kominn á hreyfingu. 

Stemmari fyrir gömlum Neshring, upp á Víðimel, út á Suðurgötu og þannig út í Skerjafjörð. Við Einar og Maggi daprir og við siluðumst af stað með Jörundi. Maggi sagði sögu af konu sem kom í apótek og vildi kaupa arsenik. Jörundur upplýsti að Einar væri ekki blómasali heldur  blómrekstrarfræðingur. Sagt frá manni sem útskrifaðist úr viðskipta- og rekstrarfræði og hefði kallað sig viðrekstrarfræðing til styttingar. Svona ganga skeytin stundum þegar vel liggur á mönnum. Einar eitthvað slappur í dag og hætti áður en komið var í Skerjafjörð, hélt tilbaka.

Við dóluðum þetta út að Skítastöð og snerum í vestur. Sást lítið til annarra hlaupara, nema við sáum ofurhlauparana á undan okkur á leið á Nesið. Kalli kom á móti okkur og fór með Jörundi vestur úr, en við Maggi beygðum af við Hofsvallagötu. Okkur skilst þeir gömlu hafi farið út að Eiðistorgi og svo tilbaka á hröðu tempói. M.a. mun prófessor Kvaran hafa tekið fram úr fremsta fólki spyrjandi hvar fremstu hlauparar væru. Hann er allur að koma til - í ósvífninni!

Hefðbundin hátíðarstund í Potti með sögum úr hlaupum, Kvaran með ádíens.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband