Sunnudagur

Mættir á sunnudegi kl. 10:10: Formaður til Lífstíðar, Þorvaldur, Magnús, Jörundur, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Færi fáránlegt, glerhálka yfir öllu, en veður gott, hiti 4 gráður og einhver vindur. Í Brottfararsal fór Formaður með langa tölu um útfarir, undirbúning þeirra og þær ákvarðanir sem taka þyrfti í því sambandi. Hér er hann í essinu sínu og enginn sterkari á svellinu en hann.

Hlaupið varlega af stað og farið hægt yfir. Blómasalinn var búinn að fara á Nes svo að hann stefndi á að ljúka um 20 km í dag. Að öðru leyti var haldið í hefðirnar á þessum degi sem endranær. Rætt um framboðsmál á Ægisíðunni þar sem við mættum síhlaupandi sveitarstjórnarmanni. Þeir skildu okkur fljótlega eftir, Magnús og Þorvaldur, en biðu þó eftir okkur í Nauthólsvík eins og hefðin býður. Þar voru örsögur sagðar og haldið áfram.

Aftur vorum við frændur skildir eftir og nú í Kirkjugarði þar sem þeir hinir héldu áfram. Þó staldraði Jörundur eitthvað eftir okkur, en á endanum gafst hann líka upp á hægaganginum og skeiðaði áfram á járnum. Farið um Veðurstofu, Hlíðar og Klambra. Þaðan niður á Sæbraut og hefðbundið tilbaka.

Í Potti var valinn maður í hverju rúmi og bættust nú dr. Baldur,dr. Mímir og dr. Einar Gunnar í hópinn. Sagðar vísbendingaspurningar sem voru svo snúnar að verulega reyndi á gáfur manna við lausn þeirra, einkum þegar vísbendingarnar voru ekki einasta misvísandi, heldur beinlínis rangar. Það eru góðar vísbendingaspurningar. Á þeim hefur dr. Baldur mikið dálæti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband