20.1.2013 | 16:44
Týndur Formaður
Á sunnudagsmorgni voru þrír hlauparar mættir til hlaups frá Vesturbæjarlaug: Jörundur, Magnús og Einar blómasali. Veður fagurt, stillt, ekki kalt, stígar hreinir og úr varð eitt ánægjulegt menningarhlaup. Hefðbundið framan af, en breytt til í Miðbæ, farin Vesturgata, Garðastræti, Túngata, Hávallagata og Sólvallagata, skoðuð hús og bílar, rætt um menningarmál.
Helsta umræðuefnið var þó þetta, að tveir menn héldu á Esjuna í gær og flaug fyrir að þar hefðu verið á ferð þeir vinir Ó. Þorsteinsson og V. Bjarnason. Er upp var komið ákvað Villi að leiðbeina vini sínum niður og benti honum á að fara greiðustu leið niður, um Gunnlaugsskarðið. Sjálfur fór hann niður hjá Þverfellshorni, beið í 4 klst. er niður var komið og hringdi þá í hjálparsveitir þegar ekkert bólaði á Formanni Vorum. Enn var verið að leita seint í gærkvöld.
Þessi saga skemmti mjög í hlaupi dagsins. Þótti ekki ósennilegri en hver önnur og í Potti lýsti dr. Baldur yfir því að hún hefði líklega meira sannleiksgildi en mörg sagan sem Ó. Þorsteinsson hefði sagt í Potti um dagana.
Nú fer að líða að því að Skrifari skríði saman og verði klár til hlaupa - og svo kemur vorið!
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.