Misvísandi sjúkdómseinkenni

Þegar Skrifari hitti Blómasalann í Útiklefa að morgni þessa dags var allt í lagi með hann. Það kjaftaði á honum hver tuska og hann átti skoðanaskipti við dr. Vigfús um allt það er til framfara horfði.

Annað hljóð var komið í Strokkinn er Blómasali mætti til Laugar fyrir hlaup. Hann bar sig illa og sagði við dr. Karl Gústaf: "Kalli, ég er með hita, hausverk og beinverki. Er nokkuð sniðugt að ég hlaupi?" Karl brást við á sinn hógværa hátt og sagði að líklega væri skynsamara að sleppa hlaupi og hlúa að sér. Við þetta læknisráð lifnaði yfir Blómasala og hann fór heim að horfa á leikinn.

Aðrir mættir í hlaup dagsins: Þorvaldur, Benz, Denni og Helmut. Fleiri voru ekki mættir. En það var fallegt veður til hlaupa, stilla, 7 stiga hiti og haldið á Nes. Sem vonlegt var voru það eingöngu öflugustu hlauparar sem fóru fyrir Seltjörn og Gróttu, aðrir styttu sér leið um Nesbala og mættu þeim hinum. Hænurnar voru haldnar til vetrardvalar innanhúss.

Svo var hlaupið tilbaka og komið til Laugar um það bil er Skrifari kom þangað óhlaupinn og haltrandi. Skeyti flugu á tröppu Laugar, m.a. um heilsufar Blómasala, en sumum hafði hann sagt að hann væri haldinn kvilla tengdum meltingarveginum. Hér urðu menn undirfurðulegir á svip og kom á Kalla. Var Blómasalinn kannski að ljúga til þess að geta horft á leikinn?

Jæja, þar sem við sitjum í Potti og förum yfir stöðu mála upplýsir Denni að hann hafi heyrt að Kaupmaðurinn hafi bannað Blómasalanum að koma í búð sína vegna þess að í hvert skipti sem hann snýr sér við í búðinni ryðji hann niður úr heilu hillunum með ófyrirsjáanlegu vinnutapi og armæðu fyrir starfsfólk. M.ö.o. var því beint til Blómasalans að eiga viðskipti við verzlanir þar sem gangar eru víðir og breiðir og nóg pláss fyrir bumbus vulgaris.

Eðllilega var spurt um Fyrsta Föstudag hvers mánaðar, en hann verður víst ekki fyrr en 1. febrúar nk. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband