6.1.2013 | 14:28
Óhjákvæmilegt að sannleikurinn komi fram
Sunnudagur í Lýðveldinu og hlaupið frá Vesturbæjarlaug stundvíslega kl. 10:10. Mættir: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Jörundur, Þorvaldur og Ólafur skrifari. Nú vantaði bara Blómasalann og Magnús tannlækni, þá hefði hópurinn verið fullmannaður. En fullkomið ástand er fremur sjaldgæft svo við þetta mannval varð að una. Fjögurra stiga hiti, logn, fallegt veður, en búast mátti við hálku. Í Brottfararsal var sem endranær rætt um góðkunningja okkar sem vænta má að bætist í stétt þingmanna að loknum kosningum í vor.
Farið rólega af stað, enda stígar varasamir, en þó voru aðstæður þolanlegar alveg austur í Nauthólsvík. Þar var venju samkvæmt tekinn fyrsti stans. Sagðir einn eða tveir ljóskubrandarar úr safni Magnúsar tannlæknis. Rákumst á þrjá hjólreiðamenn undir forystu Péturs í Kók, maður sem framleiðir eitur milli 8 og 4 á daginn, en eyðir því sem eftir lifir dags í að útryðja því sama eitri.
Hér fóru aðstæður versnandi og voru eiginlega stórhættulegar það sem eftir lifði hlaups, eða allt þar til komið var í Túngötubrekkuna. Enda fór svo að Jörundur flaug á hausinn í Kirkjugarðinum og snarruglaðist. Kallaði Skrifara Flosa, en Flosa Óla, og sagðist sjálfur heita Svavar!
Við reyndum að hlaupa eftir því sem skilyrði buðu upp á, sums staðar var hreinlega ekki möguleiki að hlaupa fyrir hálku. Farið um Veðurstofuhálendi, Stigahlíð, Klambra og Hlemm. Hér yfirgaf Þorvaldur hópinn og fór Laugaveg, en við hinir fórum Sæbrautina. Hún var stórhættuleg. En er komið var í Miðbæinn fór þetta að lagast og mikill var feginleikinn að komast í Vesturbæinn þar sem veðurskilyrði virðast öll önnur en annars staðar í Borginni.
Mikið er gott að komast út undir bert loft og geta hreyft sig eftir langa fjarveru! Alveg nauðsynlegt fyrir geðheilsuna, seinkar innlögn og Alla. Ekki verra að hitta ágæta félaga í Potti, nú var Baldur mættur og hafði ádíens. Mikið rætt um kosningakerfi og úrslit gamalla kosninga. Nöfn og nafnahefðir, bæði á Íslandi og í Svíaríki.
Næst er hlaupið mánudag, þá verður tekið á því.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.