Nýtt líf

Á þessum degi voru endurreistir til fyrra lífernis þrír af glötuðum sonum Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Meira um það seinna, en fyrst er að greina frá því er Skrifari kom til Sundlaugar Vorrar er klukku hallaði í hálfsex og glerhált var úti. Hann bar kennsl á örvasa gamalmenni við afgreiðsluborð sem var að myndast við að greiða fyrir aðgang að Laug Vorri. Er hann hafði rýnt í fyrirbæri þetta sá hann seint og um síðir að hér var á ferð hlaupari er tíðum rann skeiðin með okkur um grundir og brekkur á árum áður, sjálfur Prófessor Fróði. Var hann mættur í von um að verða endurreistur sem félagi í elzta og virðulegasta hlaupahópi landsins, aukinheldur þeim hógværasta. Hér var orðin slík fjarlægð á kynnin að menn féllust ekki í faðma, en létu nægja að heilsast kurteislega með handabandi. Furðu var karlinn ern.

Skrifari heldur sem leið liggur og samkvæmt venju til Útiklefa. Þar var þröng á þingi og ekki allt fólk sem stefndi á hlaup. Hann bar kennsl á reyfin af sumum félögum og verður ekki farið nánar út í þá sálma. Næstan ber að garði bróður Skrifara, sjálfan barnakennarann roskna. Á leið til Brottfararsalar varð vart við fleiri félaga, sosum Benzinn og Blómasalann sem gerðu mjög hróp að Skrifara, lustu upp miklum furðuhrópum og var hávaðinn ægilegur. Aðrir mættir: Magga, Maggi, Jörundur, Gummi Löve, Þorvaldur og strákurinn Benzins.

Mikil rekistefna varð í Brottfararsal um hlaupaleiðir, Þorvaldur heimtaði hlaup á Laugavegi, aðrir vildu fara með ströndum. Niðurstaðan varð sú að fara Ægisíðuna og treysta á að Gnarrinn hefði látið ryðja hana nægilega til þess að hitinn og rigningin í dag hefðu hreinsað restina af brautinni. Prófessorinn tinaði af áhyggjum yfir því að farið yrði of langt og of hratt. Sömuleiðis lýsti Jörundur yfir fullkomnum aumingjaskap og kvaðst mundu hlaupa á eftir öllum öðrum. Skrifari bættist í hóp eymingja og kvaðst varla hafa hlaupið í tvo mánuði. Hér voru því góðar nýliðunarhorfur fyrir Trabant.

Svo var lagt upp og stefnan sett á Ægisíðu. Varla höfðum við lengi hlaupið er Prófessorinn fór að kvarta yfir hraða. Jörundur hljóp með Blómasalanum og fóru þeir hægt, en Blómasalinn hefur bætt á sig miklum forða yfir jólahátíðina. Það var farið fetið og varla hægt að fara hægar, en þau í hraðfarasveit skeyttu lítt um okkur hægfarana og á þann hátt var undirstrikuð tvískipting hópsins.

Hlaupaleiðin var fremur varasöm, hál og blaut, en hlauparar létu skeika að sköpuðu. Það var ætt áfram á hógværu tempói og stefnan sett á Skítastöð. Þar héldu flestir áfram, en Skrifari, Jörundur og Blómasali sneru við og héldu til Laugar, aðrir áfram og segir ekki af þeim. Á leiðinni tilbaka gegnum Skerjafjörð kom í ljós hvers konar minniháttar botnlangi út úr Siðmenningunni þetta krummaskuð er, því að bílum var lagt þvert yfir göngustíga og lokuðu þeim fullkomlega, og ómálga börn hrópuðu ókvæðisorð að hlaupurum, spyrjandi sosum hvort "svona gamlir karlar" gætu hlaupið! Er svona byggðarlagi við bjargandi? Mætti ekki sem bezt setja jarðýtu á svæðið og byggja myndarlegan alþjóðaflugvöll út frá aðstöðunni á Reykjavíkurflugvelli?

Jæja, sem Skrifari er svo hugsandi heldur hann áfram hlaupi sínu tilbaka til Laugar, verandi í endurheimt fyrra styrks og krafta eftir langvarandi meiðsli og bólgur. Hlaupið gekk vel og ekki var verra að hitta fyrrgreinda félaga á Plani, Jörund og Blómasala og fóru fram upplýsandi umræður um Skaupið og annað meðan menn blésu úr nös.

Gott að vera kominn til hlaups á ný, gott að endurheimta Fróða og Jörund, nú fer maður að kannast við sig! Sá einhver Gísla Ragnarsson? Næst: Fyrsti Föstudagur, misheyrðist mér að Jörundur hefði eitthvað í undirbúningi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband