14.10.2012 | 13:45
Haustblíðan yfir mér
Fjórir hlauparar mættir á Plan Vesturbæjarlaugar á sunnudagsmorgni reiðubúnir til þess að renna skeið á Ægisíðu: Ó. Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Einar blómasali og Ólafur skrifari. Sól, blíða, 10 stiga hiti og einhver vindbelgingur framan af, en svo lægði er komið var norður fyrir. Mönnum var ofarlega í hug glæsileg afmælisveizla Óskar á föstudagskvöld, sem Einar missti af. Ólafur sagði okkur frá útgáfuteiti vegna bókarinnar Boðið vestur,sem hefur að geyma glæsilegar uppskriftir með vestfirzku hráefni og ekki síðri ljósmyndir að vestan. Í útgáfuteitinu var boðið upp á snittur og rautt, hvítt og bjór. Einar blómasali missti af útgáfuteitinu. Þá var í hlaupinu sagt frá Nauthólshlaupi sem þreytt var að morgni laugardags, 5 og 10 km, og súpa, brauð og verðlaun að hlaupi loknu, m.a. málsverðir á Nauthóli. Einar missti af Nauthólshlaupi.
Við félagarnir erum í rólegu deildinni og því ekki mikill asinn þennan fagra morgun. Dólað sér rólega meðan Einar lét dæluna ganga um sukkið og svínaríið hjá Orkuveitunni, en hann hefur nýverið lokið lestri skýrslunnar góðu um Orkuveituna. Hann kvaðst vera orðinn reiður vegna þessarar óráðsíu og sjálftöku sem þarna var stunduð. Hann lét reiði sína bitna á hlaupafélögum sínum.
Ekki höfðum við lengi hlaupið þegar við mættum kunnuglegu andliti. Þar var kominn sjálfur Guðjón hortugi á reiðhjóli og lá vel á honum. Við stöldruðum við og áttum við hann stutt spjall. Hér bar Holtavörðuheiðarhlaup á góma, en Ó. Þorsteinsson hefur upplýst að það verði þreytt af nýju á næsta ári, mitt á milli Laugavegshlaups og Reykjavíkurmaraþons. Síðan hélt hlaup áfram og Einar hélt áfram að barma sér.
Í Nauthólsvík sagði Magnús okkur fallega sögu sem sýndi að í Vesturbænum býr eðalfólk sem er reiðubúið að veita meðborgurum sínum liðsinni þegar vandi steðjar að. Sagan fjallaði um dekkjaskipti hjá Borgarspítalanum þar sem erlend kona var vanbúin til verksins. Eftir stutta göngu og sögustund hlupum við af stað aftur endurnærðir og sannfærðir um að það eru enn til sannir heiðursmenn.
Það var þetta hefðbundna, Kirkjugarður (þar sem enn rennur vatn úr krönum), Veðurstofa, Hlíðar, Klambrar og stanzað við Óttarsplatz. Svo var rölt eftir Rauðarárstíg, en hlaupið á ný við utanríkisráðuneyti. Niður á Sæbraut og þaðan vestur úr. Enn gerðist Einar lýrískur, benti á Esjuna og bað okkur um að berja dýrðina augum. Hér var sannarlega fallegt og var maður þakklátur fyrir að vera staddur á þessum stað, á þessum tíma, í þessu veðri og í þessum hópi góðra félaga.
Miðbær, Túngata. Við Túngötu 20 var spurt: hver bjó hér á undan Gísla Sigurbjörnssyni? Hann var forsvarsmaður tæknistuddrar ríkisstofnunar, fæddur 1881. Við gizkuðum á fjölda stofnana áður en við duttum niður á Vegamálastjórn, þar sem Geir Zoega var vegamálastjóri. Þegar komið var á Plan kom þar Baldur Símonarson aðvífandi og svaraði sömu vísbendingaspurningu svo til umsvifalaust með mótspurningu: "Var hann frændi nöfnu eiginkonu Formanns til Lífstíðar og með sama ættarnafn?" Hér kom á okkur og við urðum að hugsa okkur um áður en svarað var.
Pottur góður og margt rætt. Mættir auk fyrrnefndra dr. Einar Gunnar og Jörundur. Svo kom dr. Jóhanna og taldi upp öll verðlaunin sem Einar blómasali missti af í Nauthólshlaupinu. Hann emjaði og æjaði eftir því sem þeirri frásögn vatt fram. Haustmaraþon ku vera um næstu helgi. Í gvuðs friði.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.