Nýjasti hlaupavinur Samtaka Vorra er frá Ástralíu og heitir Robin. Hún hefur hlaupið að undanförnu með Maggie, en mætti í dag til þess að fara einn hring með hópi sem hún hafði fundið á Netinu. Kvaðst mundu fara á rólegu tempói og þáði samfylgd skrifara. Aðrir mættir: Maggie, Flosi, Benzinn, Maggi, René (í fyrsta skipti í 6 mánuði), dr. Jóhanna, Kári, Einar blómasali og Gummi Löve. Veður gott, 18 stiga hiti, léttskýjað og hreyfði varla vind.
Allnokkur bið á Plani eins og venjulega eftir blómasala, eins var einhver vandræðagangur á Maggie og hún hlaupandi út og inn eftir e-m óskilgreindum varningi. Loks silaðist hópurinn af stað og fór rólega, héldum hópinn ótrúlega lengi. Hefðbundnir hraðfarar fremstir og fóru að setja upp tempóið, þá Maggi, Benzinn og blómasalinn, loks skrifari og Robin. Ég útskýrði fyrir henni hugmyndafræði Samtakanna, þar hlypi saman fólk af ýmsum stærðum og þykkleikum og ekki allir sem eltust við tímann. Tók dæmi af sjálfum mér og blómasalanum. Þessu samsinnti hún og bætti við: "Yes, the fat guy in the red shirt in front of us is amazingly fast." Skrifari áréttaði að það gæti virst svo nú, "...but soon he will be like a popped balloon and begging us not to go so fast". Hvað kom á daginn.
Tempóið var frekar hratt út, ekkert 6 mínútna tempó eins og ég hafði lofað, líklega nær því að vera 5:30. En ég á ekki klukku eins og þau hin og því er þetta ekki bundið vísindalegri nákvæmni, nógu nákvæmt þó fyrir máladeildarstúdent úr Reykjavíkur Lærða Skóla. Við töltum þetta sumsé og ræddum hlaup á hinum ýmsu stöðum, ég sagði frá Holtavörðuheiðarhlaupi og Reykjafellshlaupi, en hún frá hlaupum hinum megin á hnettinum, í Malasíu og Ástralíu. Alls staðar hleypur fólk og ekki er betri leið til þess að kynnast landi og fólkinu sem þar býr en reima á sig skóna og leggja braut undir sóla í glaðra sveina og meyja hópi.
Fyrr en varði var komið í Nauthólsvík og þá voru þau fremstu horfin okkur, dr. Jóhanna, Gummi og Maggie og var það álit manna að þau hefðu ætlað að fara 18 km, trúlega á Kársnes. Dró saman með öðrum, utan hvað Kári og Robin fóru Hlíðarfót. Aðrir settu stefnuna á Þriggjabrúa. Fremstir fóru Bjarni og Maggi, svo Flosi og blómasalinn - og loks rak skrifari lestina. En það átti eftir að breytast.
Á Flönum kom þessi tilfinning yfir skrifara, að brátt yrði hlaupi lokið, þar sem Boggabrekka nálgaðist og þá væri bara heimleiðin eftir, að vísu yfir Veðurstofuhálendið. Yfir brú á Reykjanesbraut og svo lagt á brattann. Þá kom það fram sem skrifari hafði spáð fyrr í hlaupinu, að blómasalinn yrði ekki svo brattur allt hlaupið. Hann hætti að hlaupa og fór að ganga, meðan skrifari dró á hann og dró hann raunar uppi. Eftir þetta kjagaði hann upp brekku hálfskælandi og bað um að það yrði gengið er upp væri komið. Þá voru þeir Maggi og Benzinn löngu horfnir í síðsumarmóðuna.
Það sem eftir lifði hlaups héldum við þrír nokkurn veginn hópinn, blómasali, gamli barnakennarinn og skrifarinn, þótt stundum yrði vík milli vina. Þannig skildu þeir mig eftir hjá Kringlunni, en ég náði þeim aftur þegar komið var á Sæbraut. Þá byrjaði blómasalinn aftur að rifja upp hefðir frá sunnudagshlaupum um staði þar sem er gengið. Hann gerðist lýrískur og horfði til Esjunnar og bað okkur um að aðgæta hvort þar væri snjóskafl að sjá. Svo var ekki. Hann varð allur upplyftur af þessu og lagði til að fyrirsögnin á pistli kvöldsins yrði í þeim anda, enginn snjór í Esju. Skrifari kvaðst nú þegar vera kominn með annan betri.
Það var Sæbrautin, með hefðbundnu stoppi við drykkjarfont, svo áfram hjá Hörpu, þar var rifjað upp að hefð var um göngu. Þar dúkkaði Helmut upp á reiðhjóli, með kjapt, kvaðst vera ríkisstarfsmaður og þurfa að vinna. Skrifari kannaðist ekki við þessa kröfu og þótti hún tortryggileg. Loks þreytt hlaup að Verbúðum og gengið. Hlaupið upp Ægisgötu, pottlok af við Kristskirkju og hneigt sig fyrir nunnu sem gekk heim frá tíðum. Einar kunni sig ekki og tók ekki ofan húfu. Suma vantar allar andlegar þenkingar um hjálpræðið. Nú var ekki annað eftir en skokka niður Hofsvallagötu og klára þetta. Við Hringbraut kom barnakennarinn á fullu stími og fór á svigi yfir götuna móti rauðu ljósi sem Þorvaldur Gunnlaugsson hefði verið stoltur af. Teygt á Plani og Pottur. Á Plani voru Benzinn og Maggi. Þeir voru báðir á undan okkur hinum og við drykkjarfont á Sæbraut skildi Maggi Benzinn eftir og dró ekki saman með þeim fyrr en við Sólfar. Maggi kvaðst vera lakasti hlaupari Samtaka Vorra og þótti okkur hinum það kyndugt, skilja okkur hina eftir í hitamóðu og lýsa svo yfir aumingjaskap í lok hlaups á Plani. Af hverju ekki bara að halda sig við "fögur er fjallasýnin"?
Í Potti var Kári og Helmut óhlaupinn. Við inntum Kára eftir samræðum þeirra Robin. Jú, manneskjan var hin geðþekkasta, margt rætt og skrafað um lönd og þjóðerni. Robin kvaðst hafa heyrt að munurinn á Íslandi og útlöndum væri að í útlöndum mætti gera ráð fyrir að í hópi sem teldi tylft kvenna mætti finna ellefu ljótar og eina fallega, en í samsvarandi hópi á Íslandi mætti finna ellefu fallegar og eina ljóta. "Já, þetta er rétt," sagði Kári, "og ég veit hver hún er, hún er hollensk." Þetta var Kári dagsins, fullkomnaði hlaup.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.