Suðurhlíð með Laufássafbrigði

Fyrstir í Útiklefa: Þorvaldur og skrifari. Skipst á ónotum. Svo bættust fleiri í hópinn, Kári, Benzinn, gamli barnakennarinn í Brottfararsal. Þangað komu einnig Maggi og Jörundur, dr. Jóhanna, Gummi og Ragnar. Um það bil sem lagt var upp kom Frikki Meló. Einhverjir höfðu hlaupið um helgina og ætluðu stutt og hægt, aðrir voru bara daprir og ætluðu líka stutt. Bjarni var afmælisbarn dagsins.

Skrifari fylgdi Jörundi sem "dó" að eigin sögn í maraþonhlaupi laugardagsins. Við fórum afar hægt út, en ekki langt undan voru Bjarni, Þorvaldur og Maggi. Rætt um úrslit maraþonsins, það þarf að hringja í Arnar og fá Guðmundarbikarinn til áletrunar að nýju, blása svo til lítillar athafnar einhvern hlaupadaginn og fá jafnvel Kára Stein til þess að taka sprett með okkur. Svona gengu samræðurnar meðan við fórum fetið í Skerjafjörðinn.

Rætt um skófatnað og mikilvægi þess að þungir menn hlypu á góðum skóm. Við fórum fram úr Kára. Þorvaldur týndist. Nú voru hinir fremstu 400 m fyrir framan okkur. Í Nauthólsvík beygðu þeir af, Maggi, Þorvaldur, Jörundur - og Frikki sem hafði náð okkur til þess eins að fara Hlíðarfót. Við Bjarni héldum áfram og tókum Suðurhlíð. Alltaf gleði að taka brekkuna í einum spretti upp að Perlu. Pústað út þar efra og stefnan sett á Stokk. Bjarni lagði til afbrigði, fara upp hjá Kennarahúsi og inn Laufásveginn.

Þetta reyndist mikið heillaráð, hlaupið um fagra götu skreytta trjám í görðum, beygt niður Bragagötu og staldrað við hjá húsinu Laufási, byggðu 1896. Þar sáum við fyrir okkur í hillingum dúkað borð úti á stétt, þakið glösum fylltum hvers kyns aldinsafa og öli, gæti sem bezt verið eitthvert föstudagseftirmiðdegið á lokakafla föstudagshlaups. Niður Bragagötuna og gegnum Hljómskálagarðinn og yfir hjá Þjóðminjasafni. Þar varð á vegi skrifara jeppabifreið og sköllótt höfuð sem stóð út um glugga og öskraði: "Komaso!" Reyndist höfuðið sitja á jógabúk.

Býsna gott hlaup hjá okkur Bjarna og vorum við vel sveittir er komið var á Plan. Þar var teygt vel og lengi og skrafað. Pottur vel skipaður og sunginn afmælissöngur fyrir afmælisbarnið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband