Varað við þjófnuðum úr Útiklefa

Sl. föstudag varð Bjarni félagi okkar fyrir því eftir hlaup að forláta vindjakka var stolið af snaga í Útiklefa meðan hann slakaði á í Potti. Missirinn er tilfinnanlegur fyrir karlinn því að flíkin var vönduð og dýr. Af þeirri ástæðu eru menn beðnir að hafa varann á sér er þeir hengja af sér reyfin og helst að vera í tötrum er þeir mæta til hlaups.

Á sunnudagsmorgni voru þessi mætt: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Bjarni, skrifari, Maggie og blómasali. Veður hálfleiðinlegt, vindbelgingur, rigningarlegt, en þó ekki kalt. Maggie var upplýst um helztu reglur sem gilda um sunnudagshlaup, m.a. um hraða, stoppin og sögurnar. Henni þótti uppleggið forvitnilegt. En hún kaus að fara ekki eftir því, setti strax í fluggírinn og var horfin okkur á Ægisíðu, en Bjarni náði að vísu að hanga í henni eitthvað inn eftir.

Aðalumræðuefnið var náttúrlega Holtavörðuheiðin og stóra spurningin þessi: mun Vilhjálmur mæta og ræsa hlaupið? Menn voru bjartsýnir og töldu góðar líkur á að af því gæti orðið. Svo var það ferðatilhögunin, menningardagskráin, söfn og sund á Hvammstanga, upplestrar og kvöldvaka á Melum, en umfram allt: matur og drykkur. Melalæri elduð af meistarakokki af Reynimelnum, og svo var rætt fram og tilbaka um forrétti, meðlæti og eftirrétti.

Við dóluðum þetta hefðbundið með stanzi í Nauthólsvík. Maggie löngu horfin og hafði tjáð Bjarna að hún myndi fara 18-20 km. Þar með missti hún af sögunni við stein þeirra hjóna Brynleifs og Guðrúnar, en ég hafði satt að segja hlakkað til þeirrar stundar, einkum að heyra hvaða tilbrigði eða frávik frændi myndi bjóða upp á í dag.

Er við komum á Rauðarárstíg dró okkur uppi pensíoneraður prentari og orðhvatur. Hann hafði ekki fyrr náð okkur en hann upphóf að útmála skrifara sem ósannindamann og færi með fleipur um látna rithöfunda. Óskaði prentari eftir því að fá bókuð mótmæli sín hjá Samtökunum. Gekk hann á Formann um að staðfesta slíkan gjörning. Formaður tók því fálega, og mátti skilja á honum að þess þyrfti ekki, enda væri hvers kyns nöldur umborið í Samtökum Vorum.

Saman lögðum við í Sæbrautina og héldum nokkuð vel hóp, utan hvað Jörundur og blómasali fóru hjá Hörpu, en við hinir hjá Útvarpshúsi samkvæmt gamalli hefð. Farið hjá Kaffi París, en enga hyllingu að hafa, áfram upp Túngötu. Ekki er hægt að skilja við pistil án þess að láta getið þeirra fjölmörgu kvenna sem mættu okkur á leiðinni og brostu allar við sínum elskuvini - Ólafi Þorsteinssyni. Hann vissi ekki einu sinni hvaðan hann ætti að þekkja þær: "Ja, þær koma þarna einhvers staðar innan úr akademíunni."

Í Potti vorum við helztu drengirnir, og bættust við hlaupara þeir dr. Einar Gunnar, dr. Baldur og Flosi, allir óhlaupnir. Haldið áfram að skipuleggja hlaup næstu helgar, en þó hugað að menningarmálum í bland við persónufræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband