Miðnætursól á Heiðarhorni

Hin árlega Miðnæturganga Hlaupasamtaka Lýðveldisins var þreytt mánudaginn 18. júní - og lauk raunar ekki fyrr en að morgni þess 19da. Þátttakendur voru 9: Flosi og Ragna, skrifari, Helmut og Jóhanna, auk tveggja kennara í FÁ, Ársæls og Eiríks og þeim tengdum konum, Ingveldi og Hjördísi. Ekið var sem leið liggur um Vesturlandsveg, um Hvalfjarðargöng og í Melasveitina, að bænum Efra-Skarði. Þar fengum við að leggja bílum í túnfætinum og lögðum á brattann.

Þessi ganga var mun erfiðari en sú á Esjuna í fyrra. Uppgangan reyndi mun meira á og var skrifari orðinn vel heitur eftir stundarfjórðungs göngu, svo ekki sé meira sagt! Alltaf skal það koma manni í koll að vera vitlaust klæddur, mætti hafa verið minna klæddur í upphafi, með þann möguleika að bæta á sig fötum er ofar kæmi og kulaði. Við nutum leiðsagnar hins reynda fjallagarps, Helmuts, sem lofaði rólegri göngu og stóð að mestu við það. Hins vegar pískaði hann menn áfram af vinsemd með nokkrum "jæjum". Fyrsta nesti eftir 1,5 klst. Skoðuðum Skessubotna og Skessubrunn og var þar fagurt um að litast.

Skriðan upp á Skessuhyrnu var strembin, en eftir það var þetta ljúf ganga upp hrygginn á Heiðarhorn. Þar vorum við komin um eittleytið um nóttina, sól var að setjast og nutum við sólarlagsins þar um stund og tókum annað nesti. Lituðumst um, sáum vítt of heima, Snæfellsjökul, upp á Mýrar, Skessuhorn, Baulu og í Borgarfjarðardali. Hér voru vatnsbirgðir farnar að þverra hjá skrifara og hann horfði löngunaraugum niður í dalinn þangað sem við áttum að setja stefnuna. Ekki þurftum við að ganga nema í 20-30 mín. þegar við komum að fyrstu fjallallækjum hjalandi með sitt blátæra og svalandi lindarvatn. Hér stillti fólk sér upp í röð til þess að fylla á flöskur og svolgruðu menn í sig guðaveigarnar. Þetta er ávallt mesta tillökkunarefnið, að svala þorstanum með vatni úr fjallalækjum.

Gangan gekk vel, hópurinn samstilltur og almennt í góðu formi, héldum vel hópinn og enginn dróst aftur úr. Niðurgangan var snurðulaus og vorum við komin að bílunum aftur um þrjúleytið að morgni 19. júni. Erfiðri en ánægjulegri göngu lokið, menn voru sveittir og þreyttir en ánægðir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband