Hlaupið á Nesi þar sem hreppsnefndin neitar að breikka stíga

Það kann að hafa farið fram hjá hlaupurum þrátt fyrir ítarlega auglýsingu að Vesturbæjarlaug er lokuð frá 4. júní til 19. júní. Við verðum bara að horfast í augu við þá staðreynd að sumir af okkar minnstu bræðrum/systrum eru ekki betur læsar en svo að einfaldur miði í rúðu fer algerlega fram hjá þeim og þeir/þær skynja ekkert. Koma svo að læstum dyrum og skilja ekkert. Líkt og fór fyrir honum Þorvaldi okkar hérna um árið þegar hann kom að bílalausu bílaplani við Vesturbæjarlaug og lék forvitni á að vita hvað stæði á miðanum á hurð Laugar - með þekktum afleiðingum.

Jæja, við þessir betur gefnu hlauparar mættum alla vega í Neslaug kl. 17:30 og settum stefnu á hlaup. Þetta voru auk skrifara, Jörundur, Þorvaldur, Kalli og Ólafur Hj. Það sást til nokkurra hlaupara TKS, en þeir voru ekki margir. Spurt var hvort samtök þeirra væru að liðast í sundur og var ekki laust við að vonleysis gætti í svörum. Við spurðum um grindarbotnsæfingar, en enginn vildi kannast við að þær væru iðkaðar á Nesi. Þó er þekkt að hlauparar hverfa upp í grasbolla upp af Laug fyrir hlaup og teygja sig og engja á alla kanta í annarlegum tilgangi. Þorvaldur var ólmur að hefja æfingar af þessu tagi, en við náðum að teygja hann frá slíkum áformum.

Það var ákveðið að setja stefnu á Neshlaup, fara kringum golfvöll, út að Gróttu og skoða svo möguleika á að lengja í tíu km. Fórum þetta nokkuð rólega út, Kalli nýkominn frá Mallorca og ekki búinn að hlaupa um nokkurt skeið. Við Jörundur með slæmsku í öndunarfærum og hægir í gang. Þorvaldur hins vegar og Ólafur hinn alhressir og fóru á undan okkur. Ekki varð tíðinda framan af, hiti um 20 stig, sólskin, en góður andvari, einkum er komið var fyrir golfvöll og stefnan sett á Gróttu.

Við norðurhornið á Nesi sáum við mann sem var að reyna að hefja flugdreka á loft. Þetta var stór og mikill flugdreki, og það sem gerði verkefnið enn tilkomumeira var að hann ætlaði greinilega að flytja sjálfan sig í drekanum. Við fylgdumst með honum þar sem hann færðist nær hafi og flaut svo endanlega út á hafflötinn og er ekki vitað meira af afdrifum hans.

Jæja, við áfram. Það var mikið um dýrðir um síðastliðna helgi. Blómasalinn með afmælisveizlu í bústað sínum og bauð upp á dýrindismat í framhaldi af Sólheimahlaupi sem þrír þreyttu: blómasalinn, Ragnar og Þorvaldur. Þá hjóluðu Kári og Biggi 85 km leið frá Vesturbæ Reykjavíkur alla leið í Selholt að heimsækja vin sinn og heiðra hann á fimmtugsafmælinu. Aðrir komu akandi austur og treystu sér ekki til að hlaupa. Við áttum yndislega stund í sveitinni að sveitasetri Einars og Vilborgar.

Það var einhver leti í mannskapnum og við enduðum með að fara 7,5 km í dag og kenndum æfingarleysi og slæmri heilsu um. En hér með er hvatt til þess að félagar Hlaupasamtakanna mæti til hlaups frá Neslaug á hefðbundnum hlaupatímum Samtaka Vorra á meðan Vesturbæjarlaug er lokuð. Bara svo að það sé frá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband