20.4.2012 | 22:12
Vináttan
Vináttan er einn meginþátturinn í starfsemi Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Það sáum við með áþreifanlegum hætti sl. laugardag þegar haldin var árshátíð Samtakanna í Viðey, þar sem saman voru komin 30 manns í gleðskap og fögnuði yfir sigrum síðastliðins árs, en aðallega vegna þess að maður er manns gaman (konur teljast líka með). Vináttan kemur ekki af sjálfri sér og lifir ekki af sjálfri sér, hún er þarna einhvers staðar í bakgrunninum, en hana þarf að rækta og efla. Forðast ber að leyfa illgresi minniháttar sjónarmiða að granda vináttunni. Ef menn höndla ekki aðstæður þar sem reynir á vináttuna ætti að forðast að koma sér í slíkan vanda.
Hvað um það. Fámennt í hlaupi dagsins. Fyrstur í Útiklefa var skrifari á nýju, ryðguðu Mongoose-hjóli. Svo komu Bjössi og Kári. Kári fór í sturtu og rakaði sig. Svo kom Einar blómasali. Fátt var með honum og kokkinum. Saman steðjuðum við þó til Brottfararsalar. Áður hafði skrifari spáð því að Denni myndi mæta vegna þess að hann eygði von um Fyrsta. Stóð eins og stafur á bók er mætt var í Sal. Kom ekki Denni kjagandi upp úr kjallara og horfði vonaraugum til okkar hinna. Hófust svo samningaviðræður um framhaldið, en lauk ekki að sinni.
Kári hljóp af stað segjandi að við myndum ná honum. Það sem Kári vissi ekki var að við ætluðum ekki sömu leið og hann. Við fórum á Nes. Kári fór hefðbundið. Á leið á Nes voru skransali, skrifari og blómasali og kokkurinn. Það voru einhver þyngsli í mannskapnum og fljótlega dróst skransalinn aftur úr okkur hinum. Bjössi setti upp tempóið og skildi okkur Einar eftir. Við vorum ekki að gera okkur rellu út af þessu, tókum því rólega, enda um nóg að tala. Ég sagði Einari sögu af æskuslóðum hans sem kannski verður sögð síðar.
Okkur varð hugsað til vinar okkar, Vilhjálms Bjarnasonar, sem er sextugur í dag. Við hugleiddum með hvaða hætti Hlaupasamtökin gætu komið á framfæri hamingjuóskum til hans án þess að valda misklíð. Engin niðurstaða.
Við Gróttu var dokað við og tímajafnað, beðið eftir Denna. Svo var haldið áfram. Denna var mikið niðri fyrir vegna kvótafrumvarpsins, enda er hann fulltrúi Útgerðarauðvaldsins í okkar hóp, sem sér þá ógn mesta að fólkið í landinu fái loksins notið arðsins af auðlindinni sem er sögn eign hennar. Það væri skelfilegt ef arðurinn rynni til þjóðhagslega hagkvæmra hluta, en ekki í vasa útrásarvíkinga sem vilja spekúlera með fjöregg þjóðarinnar í útlöndum.
Jæja, við kjöguðum þetta hjá Bakkatjörn og svo þá leið tilbaka. Athygli vakti að Seltjarnarnessbær er búinn að skrúfa frá vatni á hlaupaleiðum og streymir vel úr lindum. Farið um íbúðagötur, Lambastaðabraut og niður á Nesveg. Denni vildi sýna okkur tré með kirsuberjum, en ég veit ekki á hvaða efnum hann var þegar hann sá berin, trén fann hann engan veginn og var samt hlaupið fram og aftur blindgötuna. Komum loks til Laugar og sáum dr. Jóhönnu sem hafði lokið 28 km hlaupi eins og að drekka vatn.
Pottur flottur. Þangað mættu Biggi jógi og Anna Birna óhlaupin. Sagðir brandarar af ýmsum toga, en ritari minnist þess að hafa heyrt orðið "ljóshærð kona" koma fyrir í sumum þeirra. Skrifari ók hjólfák sínum heim á leið framhjá heimili blómsala, en var óðara boðinn inn að meðtaka bjór sem þar hafði verið á kælingu um nokkurt skeið. Blómasalinn er höfðingi heim að sækja og hjálpsamur í hvívetna.
Á morgun er víst eitthvert hlaup. Í gvuðs friði.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.