16.4.2012 | 20:27
Erfitt að byrja aftur eftir árshátíð
Hlaupasamtökin héldu hina árlegu árshátíð sína í Viðey sl. laugardag, 14. apríl. Örlygur Hálfdánarson tók á móti okkur á Skarfabryggju og benti hópnum á kennileiti úr landi, Þórsnes, Kvennagönguhóla o.fl. 30 manna hópur flaut með ferjunni hans Tuma út í eyna og var kominn á augabragði yfir. Þar hélt kynningin áfram og benti Örlygur á ýmislegt merkilegt sem fyrir augu bar. Gengið til kirkju og sátu hlaupafélagar prúðir á bekkjum meðan Viðeyjarjarl talaði. Síðan var gengið um kúmenbrekkur, að minnismerki um Skúla fóveda, gengið austur eyna, skoðaðar húsarústir og barnaskóli. Skrifari bar það á Örlyg að hafa ævinlega komð of seint í skólann þrátt fyrir að hafa búið hinum megin við götuna. Kvað Örlygur það vera helvítis lygi.
Viskífleygar sáust á lofti, það hýrnaði yfir mönnum. Síðan var haldið í Vatnstankinn, félagsheimili þeirra Viðeyinga. Þar sló Bjössi kokkur upp dýrindisveislu með úrbeinuðu lambakjöti, meyru svo það bráðnaði á tungum viðstaddra. Ekki sló aðstoðarkokkurinn, Steinn Logi, slöku við og stóð sig með prýði og er verður verkalauna. Formaður til Lífstíðar setti hátíðina og flutti hjartnæm minningarorð um fallna félaga, þá Jón Braga Bjarnason og Ingólf Margeirsson, sem féllu frá á seinasta ári.
Síðan tók við mikil menningarvaka sem einkenndist af hófstillingu í öllum atriðum, en mikilli menningu, kurteisi, skemmtun og söng. Veður var með eindæmum fagurt, og mátti standa úti á palli langt fram eftir kvöldi, en þar stóð Lagavúlin-flaska í eigu Bjarna Benz og sýndu margir innihaldi hennar áhuga. Loks var tekið til við tiltekt og haldið heim er rökkva tók. Rusl allt fjarlægt og poki með flöskum og dósum. Kvaðst Eyjarjarl sjaldan hafa upplifað jafnmikla kurteisi og hófstillingu af hálfu gesta Viðeyingafélagsins. Vel heppnað kvöld og eftirminnilegt!
Jæja, sumir mættu í sunnudagshlaup daginn eftir - og sumir ekki. En á mánudegi var afskaplega fámennt: það var Þorvaldur, Flosi, blómasali, skrifari, Bjössi kokkur, Kári og Benz. Svo dúkkaði Ragnar upp eftir að hlaup var hafið. Lagt upp í leiðindastrekkingi og var skrifari frekar þungur á sér eftir schnitzel í hádeginu. Hélt í við þá hina í nokkur hundruð metra, en dróst svo aftur úr og fór inn í Skerjafjörð við Suðurgötu, út að Skítastöð og þaðan tilbaka vestur úr. Mætti Benzinum og saman skeiðuðum við tilbaka til Laugar. Þetta var ágætt hlaup svona í byrjun viku!
Svo var legið í Potti í klukkutíma og skrafað um flug og fleira. Ég fór með væmna vorvísu fyrir Benzinn sem er svona:
Þröstur minn, vorið og þú eruð eitt.
Þið berið ljós inn í sálarhró mitt.
Ég dillandi sönginn þinn dýrka heitt,
svo drullarðu á bílinn minn, helvítið þitt!
Haft eftir organista úr morgunpotti.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.