12.2.2012 | 13:42
Kyrrlátum sunnudagsmorgni varið til hlaupa
Þeir eru einstakir, sunnudagsmorgnarnir í Vesturbænum, varla sál á ferli og tæplega að bærist hár á höfði manna eða dýra. Menn eru mættir stundvíslega kl. 10:10 við Laug, alklæddir í hlaupagalla, því að enn opnar Laug ekki fyrr en kl. 11 og er þó fólk enn að koma kl. 10 haldandi það dyr verði opnaðar fljótlega. Jæja, að þessu sinni voru það skrifari, Magnús og Þorvaldur sem hugðu á hlaup. Nú verða sjálfsagt einhverjir hissa að sjá ekki nafn Formanns til Lífstíðar, Jörundar eða Einars blómasala, en þeir tveir síðastnefndu hafa verið einkar háværir um afrek sín í hlaupum og með ónot við ónefnda félaga þeirra sem hafa misst af einu og einu hlaupi vegna mikilvægra embættisferða til Brussel. Hvað um það, félagsskapurinn var góður og engin ástæða til að ætla annað en hlaup yrði farsælt.
Skrifari að vísu þungur á sér þar sem hann hafði farið Þriggjabrúahlaup í gær, laugardag, á þokkalegasta tempói. Það er nauðsynlegt að grípa til ráðstafana til að stemma stigu við hinni ógnvænlegu þyngdaraukningu síðustu vikna. En það var lagt í hann, rigningarlegt og einhver sunnanátt. Eðlilega var rætt um úrslit í Júróvisjón og voru menn sammála um að lagavalsins vegna mætti gjarnan fella niður þátttöku þetta árið. Þetta var morgunninn þegar fréttist af andláti söngdívunnar Whitney Houston þar vestur í Hollywood. Menn tjáðu hug sinn þar um og um það eiturlyfjaumhverfi sem þetta fólk býr við.
Nú bættist Flosi í hópinn á reiðhjóli og kvartaði yfir meiðslum, en hann hljóp einnig í gærmorgun. Þá vorum við komnir í Nauthólsvík þar sem standa yfir miklar framkvæmdir, bæði á plani uppi og eins niðri í fjöru. Fróðlegt verður að sjá hvað þar rís. Aðeins gerður stuttur stans og svo haldið áfram. Aftur gengið í Kirkjugarði, en eftir það var hlaupið alla leið.
Er komið var að Hörpu taldi ég heppilegast að ganga smáspöl vegna þreytunnar, en hélt svo áfram hlaupandi og náði þeim hinum fljótlega. Svo var aftur gengið upp Ægisgötu og þá skildu þeir Þorvaldur og Magnús mig eftir. Þrátt fyrir þetta var komið til Laugar á mun betri tíma en alla jafna og skakkaði líklega einum 15 mín.
Í Pott mættu syndaselir. Ó. Þorsteinsson kvað hlaupafatnað sinn ekki hafa náð að þorna yfir nótt frá hlaupi gærmorgunsins og verður að teljast á veikum grunni byggt. Hins vegar kom blómasalinn svo að segja beint úr nætursukki, Þorrablóti með vinum þar sem bæði var etið og drukkið ótæpilega. Ja, menn ættu að vera háværari í skeytum sínum! Þar að auki voru í Potti dr. Einar Gunnar og Tobba, sem ekki hefur sést að hlaupum lengi. Síðar bættust í hópinn Stefán verkfræðingur og frú Helga. Rætt um kosningaúrslit og bílnúmer, nýjustu jarðarfarir og misjafnar ævir manna.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.