8.2.2012 | 20:31
Örlög Jameson flöskunnar
Skrifari er vinur vina sinna. Meira um það seinna. Í fögru veðri söfnuðust margir valinkunnir hlauparar saman. Mátti bera kennsl á Þorvald, Magga, Möggu, Helmut, Bjössa, Stefán, Gumma, Ósk, Hjálmar, dr. Jóhönnu, Jóhönnu Ólafs, Harald, auk þess sem Kára brá fyrir, en ekki ljóst hvort hann hafi hlaupið. Skrifari var mættur. Miðvikudagur og þá er farið langt, ekki styttra en Þriggjabrúa, jafnvel lengra. Haraldur Jónsson að koma úr sjóbaði með loðhött á höfði.
Skrifari hitti blómasalann í gærkvöldi. Strengdu menn þar þess heit að hlaupa langt í miðvikudagshlaupi. Þeir áttu langt spjall. Skrifari var nýkominn úr mikilli svaðilför til Brussel. Á heimleiðinni var flogið gegnum Köben og varð hálftíma seinkun. Sem var allt í lagi, nema hvað eftir lendingu tók við þriggja tíma bið úti í vél eftir því að fá að koma inn í flugstöð, mönnum þótti víst vindurinn vera eitthvað háskalegur. Ekki urðu menn varir við vind úti í vél. Jæja, skrifari er vinur vina sinna og færir þeim gjarnan eitthvað eftir dvöl í útlöndum. Í þetta skiptið hafði hann hálfflösku af Jameson í handraðanum ætlaða blómasalanum. Nú voru góð ráð dýr! Ekkert að hafa í vélinni í þrjár klukkustundir! Hvað gera menn? Nú, þeir bjarga sér. Tappi dreginn úr Jameson og byrjað að teyga. Um það bil sem dyr á farkostinum voru opnaðar var komið niður í miðjar hlíðar á Jamesoninum.
Blómasalinn brást harla kátur við þegar honum var fengið Lindt súkkulaði og hálfur fleygur af Jameson. Litlu verður Vöggur feginn. Hann var fullvissaður um að næst fengi hann fullan fleyg. Það þurfti ekki meira til þess að gleðja þessa einföldu sál. Um sama leyti lýsti blómasalinn yfir því að það yrði farið langt miðvikudag. Hann lét hins vegar ekki sjá sig í hlaupi dagsins.
Nú, menn lögðu vissulega upp og Maggi hafði á orði að langt væri umliðið síðan Frikki Guðbrands hefði sýnt sig. Fórum þetta á léttu og rólegu dóli, en áður en langt var um liðið var "hinn" hópurinn búinn að skilja okkur lakari hlaupara eftir. Ég fór með Helmut og Magga og við vorum bara rólegir. Björn var rólegur líka, fór 5 km, er að byggja sig upp eftir hlaupaleysi Víetnam- og Taílandsfarar.
Óskaplega var skrifari þungur á sér eftir utanlandsferðina, skrýtið hvað svona ferðalög fara illa með skrokkinn á manni! En við djöfluðumst þetta inn í Nauthólsvík og svo var stýrt inn á Hlíðarfótinn hjá HR og þá leið tilbaka. Þetta voru Þorvaldur, Magnús og skrifari, en Helmut hélt áfram Þriggjabrúa. Hér var farið að kólna svo eftir var tekið og eins gott að ekki var farið lengra.
Ástandið skánaði þegar á leið og við vorum bara góðir á Hringbrautinni. Teygt með dr. Jóhönnu í Móttökusal. Svo var legið í Potti með Bjössa og Jóhönnu og rætt um austurlenska matreiðslu, ávexti og landabrugg.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.