Kleppur - Hraðferð

Ætla má að þeir vegfarendur sem sáu félagsmenn í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í kvöld í glerhálku hafi spurt sig: "Er þetta fólk ekki með öllum mjalla?" Það hvarflaði satt að segja að skrifara hvort við værum fyllilega með fulle fem, svo geðveikisleg var færðin að það datt oní mann hvort ekki væri skynsamlegast að snúa við þegar á Ægisíðunni.

Tildrögin voru sumsé þau að hlauparar söfnuðust saman við Vesturbæjarlaug, þessi voru: Magga, dr. Jóhanna, Benzinn, Þorvaldur, Heiðar sálfræðinemi, Guðmundur, Pétur, skrifari, Helmut, Magnús og blómasalinn. Það var stemmari fyrir Þriggjabrúa og raunar hafði blómasalinn sent út póst fyrr um daginn með hvatningu til Þriggjabrúahlaups. Menn lögðu almennt upp með þann ásetning að ljúka téðu hlaupi hið minnsta.

Stemmningin breyttist lítillega þegar komið var niður á Ægisíðu. Þar var bara gler, því verður ekki öðruvísi lýst. Þegar svo við bættist stífur vindur í fangið má merkilegt heita að maður haggaðist yfirleitt eitthvað fram á við. Þau voru furðu brött, dr. Jóhanna, Magga, Pétur og Gummi, að skella sér strax á hlemmiskeið og virtust litlar áhyggjur hafa af glerinu. Við hinir varkárari og skynsamari einbeittum okkur að því að fylgjast með hverju fótspori svo ekki yrði flogið á hausinn.

Þetta kom þannig út að Þorvaldur, Maggi og Benzinn skildu okkur hina eftir, þar á eftir kom Helmut á nöglum og rákum við blómasalinn lestina, og hefur það ekki gerst í háa herrans tíð að svo ágætir hlauparar lendi síðastir. Nema hvað, við erum báðir framsettir og miðar því seinlegar áfram en öðrum, og svo kom stormurinn í Skerjafirði og þá fór maður alvarlega að velta fyrir sér að snúa við. Um þessar mundir fæddist sú ákvörðun að stytta og láta Hlíðarfót nægja.

Þegar hlaupið er af þessari varkárni og einbeitni stífnar maður allur upp, hlaupið verður erfiðara og áreynslan meiri, þreytan setur fyrr inn. Það var bara Hlíðarfótur og hjá Gvuðsmönnum og þá leið tilbaka. Ekki var ástandið betra á stígum við Hringbraut og raunar ekki fyrr en á Hagamel að við fundum auðar gangstéttar. Fyrstir til Laugar, rúman klukkutíma að fara 8 km.

Það var einmanalegt í Potti til að byrja með, en svo duttu þau inn hvert af öðru og var þá upplýst að Maggi, Þorvaldur og Benzinn hefðu farið Hlíðarfót, Klambratún og Laugaveg, en þau hin fullt Þriggjabrúahlaup. Einnig var sagt frá því að dr. Jóhanna var næstum dottin í drullupytt við Skógræktina, en Pétur lenti í hávaðarimmu við Gumma út af samkeppnismálum, þó héldu þeir fulltri einbeitingu og fullum hraða á glærum stígum. Ekki er vitað hvar umræðunni var komið þegar Pétur loks flaug á hausinn við Ríkisútvarpið. Var honum þó klappað lof í lófa að hafa haldið rifrildið og hlaupið svona lengi út.

Að öllu jöfnu ætti næst að hlaupa föstudaginn 23. desember, þá lokar Laug kl. 18. Hvað menn athugi. Hyggist menn hlaupa laugardaginn 24. desember má hafa til hliðsjónar að Laug er lokað kl. 12:30. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Viðurkenni ég fúslega að láta lítið fyrir mér fara, en sökum hóflegrar yfirþyngdar er ég hissa á að hafa af því er virðist verið ósýnilegur með Lýðveldinu í dag. Ég verð þá bara að hafa hærra næst...

Heiðar sálfræðinemi (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 23:05

2 Smámynd: Hlaupasamtök Lýðveldisins

Skrifari biðst velvirðingar á að hafa gleymt að nefna Heiðar. Yfirleitt er fjarvera úr pistlum tekin sem merki um hæversku og prúðmannlega framgöngu viðkomandi hafi hann hlaupið á annað borð. Þó er ekki fyrir að synja að sérstaklega hafi verið óskað eftir því að vera haldið utan við pistla, um það eru líka dæmi.

Hlaupasamtök Lýðveldisins, 22.12.2011 kl. 18:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband