Sögulegur Sunnudagur

Kaupmannahafnarmaraþon verður þreytt um miðjan maí, eftir fjóra mánuði, og ekki seinna vænna að fara að huga að undirbúningi, hvað þá skráningu. Þar kemur ónefndur blómasali sterkur inn. Meira um það seinna. 

En nú var sem sagt sunnudagur og á sunnudögum eru hlaup ævinlega stunduð frá Sundlaug Vesturbæjar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Mætt til hlaupa voru Friðrik, Einar, Ólafur, Súsanna og hinn nýi meðlimur, Kjartan. Já, það er að vísu ákveðin sagnfræðileg ónákvæmni fólgin í því að segja að Friðrik hafi verið mættur því að af mörgum dýrmætum mannkostum hans er kunnátta á klukku ekki hvað efst á blaði. Hann náði okkur sem sagt í Nauthólsvík. 

Við hin bara spræk, gott veður, hiti við frostmark, föl á jörðu en stilla. Ákveðið samt að fara rólega því að sumir voru að næra sig á nautalund með bernaise-sósu í gærkvöldi og slíkur kostur sígur í. Færi gott og alls ekki hált. Rætt um Kaupmannahafnarmaraþon sem blómasalinn ætlar að taka þátt í. Hann á að vísu eftir að skrá sig, en það gæti gerst mjög fljótlega. Og æfingar mjög fljótlega eftir það. En stórar ákvarðanir eins og þessi kalla á góða hvíld á eftir og hefur hún verið í fyrirrúmi frá því að ákvörðunin lá fyrir um miðjan desember. Einnig var rifjað upp hvers vegna próf. Fróða er svo illa við Skátana sem raun ber vitni, en þá sögu hafði Kjartan ekki heyrt. Alltaf gaman að geta breitt út sagnaarf Samtakanna. 

Góður hraði á fólki nema hvað það þurfti að sækja Einar nokkrum sinnum af fyrr greindum ástæðum. Hann var með mannbrodda, en skildi þá eftir í bílnum, vildi því fara varlega. Myndataka í Nauthólsvík þegar Friðrik hafði bæst í hópinn. En þegar hópurinn kom í Kirkjugarð breyttist hlaupið í Gög og Gokke kvikmynd. Fyrst gerðist það að Einar hvarf og töldum við að hann hefði stytt sér leið. Fórum að skyggnast um eftir honum og rákum þá augun í hann þar sem hann var að brölta á fætur. Hann hafði af öllu að dæma flogið á hausinn í glærunni undir snjófölinni. Frikki rauk af stað að hjálpa og flaug með það sama á hausinn, bókstaflega talað, því að dynkurinn sem framkallaðist þegar hnakkinn á honum skall í klakann kom að sögn fram á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar og varð efni í nýjan pistil frá Trausta veðurfræðingi. Þá stökk Ólafur skrifari til og vildi bjarga Frikka en flaug sjálfur á hausinn, tognaði í baki og meiddist á handlegg. Einar var með böggum hildar yfir nýju hlaupabuxunum sem hann hafði rifið í fallinu: "Ég hef bara farið þrisvar í þær" sagði hann. 

Hafi það farið fram hjá nokkrum þá var glerhált á hlaupaleiðinni í dag og mikil mildi að hálf Hlaupasamtökin enduðu ekki uppi á Bráðamóttöku ofan í öll önnur veikindi og meiðsli sem þar þarf að kljást við. Segja má að við höfum farið afar hægt eftir þetta alla leið yfir á Klambratún þar sem þeir Frikki og Einar duttu aftur, enda verður seint sagt að þeir læri af fyrri reynslu, sbr. orðlagða stundvísi þeirra. En þó verður að segjast eins og er að ekki eru uppi vísbendingar um að Frikki hafi orðið mikið verri af þessu falli öllu. 

Laugavegurinn var bara góður yfirferðar og neðarlega stöðvaði atvinnuljósmyndari okkur og heimtaði að fá að mynda okkur. Var það auðsótt af okkar hálfu, enda ekki plöguð af feimni eins og margir hlauparar þó eru. Eftir þessa rússíbanareið þótti ekki annað boðlegt en bjóða okkur á Edition Hotel í morgunkaffi með snúðum. Stóð Kjartan fyrir því boði af miklum rausnarskap og var vel tekið á móti okkur á kaffiteríu hótelsins eins og ævinlega þegar við komum. Líklega halda starfsmenn hótelsins að hér séu stórmenni, eða alla vega athafnamenn, á ferð. 

Einhvern veginn tókst okkur að skakklappast til baka og vorum fegin því að komast til Laugar og skella okkur í Pott þar sem biðu okkar Mímir, Guðni og Erla, Jörundur, og Ó. Þorsteinsson sem kom blaðskellandi á tólfta tímanum. Í anddyri voru í boði súkkulaðimolar í tilefni af afmæli Árna Björnssonar sem fyllir níutíu ár á þessum degi. Hafði Óli prestur séð til þess að haldið yrði upp á afmæli hans með þessum hætti. 

Næstu dagar munu leiða í ljós hversu mikil meiðsli menn hlutu af þessari hættuför og hvort Kaupmannahafnarmaraþon er í voða stefnt. En hún sýnir hvílík hetju- og fórnarlund er Samtökum Vorum í blóð borin, í bland við hæfilegan skammt af gáleysi. Í Guðs friði. 


Hlaupið í kyrrþey

Fjarri sé það mér að hreykja mér af unnum afrekum, en þeim mun heldur er það mér metnaðarmál að halda félögum mínum upplýstum um þau hlaup sem innt eru af...fæti. Nú er það svo að ráðgert er að halda maraþon í Reykjavík hinn 21. ágúst nk. - ef veiran lofar. Þar er Skrifari samviskusamlega skráður í hálft maraþon. 2019 hljóp ég síðast þá vegalengd og var á tímanum 2:20 eða þar um bil. Tími sem ónefndur þingmaður hefði verið sæmdur af. Ekki meira um það. Nú stóð vilji til þess að bæta þann tíma lítillega. 

Til þess að bæta tíma þarf að æfa. Ef menn vilja ná árangri er gott að æfa skipulega og hafa prógramm. Ekki er verra að hafa þjálfara. Ég bý að vísu ekki jafn vel og Einar blómasali sem hefur einkaþjálfara sem býr í Kópavogi og er ávallt reiðubúinn með góð ráð þegar eftir er leitað. Málið er bara að það er ekki leitað svo mikið eftir góðum ráðum hjá þessum þjálfara. Einar er nefnilega ekki mikið í því að æfa skipulega og eftir prógrammi. 

Er þá komið að næsta punkti. Gott er að hafa æfingafélaga til þess að hvetja sig áfram og gera æfingarnar þolanlegar. Ekki býr Skrifari svo vel að hafa félaga sem æfa skipulega og samviskusamlega með honum að ofangreindu marki, eftir prógrammi og með einkaþjálfara. Menn eru nefnilega út um hvippinn og hvappinn á besta æfingatíma og ná engan veginn að stilla saman strengina. Frikki að fara Súlur, Einar í sumarbústað, Óli Gunn að synda í sjónum í Eyjafirði. Svo að Skrifari hleypur einn. 

Planið var að fara eitt langt hlaup um hverja helgi. Farið að Stíbblu fyrir tveimur vikum, 19 km, Kársnes fyrir viku 20 km - og toppurinn kom á þessum morgni, upp að Árbæjarlaug 21 km á tímanum 1:58. Æfingahlaup NB í stífum mótvindi fyrstu fjóra kílómetrana. Gott er að rifja upp gamlar hlaupaleiðir og mikil nostalgía í blóðinu: Kársnes, Árbæjarlaug, staðir sem maður hefur ekki heimsótt í áratug eða svo. Bara sæla! 

Niðurstaðan er þá þessi: gott er að æfa fyrir langhlaup, æskilegt að hafa æfingaáætlun (prógramm), ekki verra að hafa einkaþjálfara, hlaupafélagar gera æfinguna bærilega. Ef ekki vill betur gengur líka ágætlega að hlaupa einn og í kyrrþey. Hlaupasamtökin munu eiga sína fulltrúa í Reykjavíkurmaraþoni 2021 sem endranær.  


Hlaupið á sunnudegi

Þrátt fyrir lokanir sundstaða halda Hlaupasamtök Lýðveldisins úti þróttmiklu æskulýðsstarfi sínu alla daga vikunnar. Má sem dæmi nefna að á þessum morgni, sunnudaginn 11. apríl 2021, mættu tveir léttstígir hlauparar til hefðbundins sunnudagshlaups. Voru þar á ferð Einar blómasali og Skrifari sem mættu á tún Vesturbæjarlaugar og hófu hlaup stundvíslega kl. 9:16. Vonir stóðu til að þeir Frikki og Óli Gunn mættu líka, en þeir komu ekki. Hvað þá heldur Óli Þorsteins eða Magnús tannlæknir. Allir eiga tilgreindir menn það sameiginlegt að vera einhver mestu ljúfmenni og prúðmenni sem sögur fara af í gervöllum Vesturbænum og væri sannarlega fengur að því að sjá þá taka sprettinn í kátra sveina og meyja hópi.  

Við vorum sumsé aðeins tveir en mættum fljótlega Súsönnu. Hún var á rangri leið. Okkur mistókst að sannfæra hana um að hlaupa með okkur og bar hún við smávægilegri gjólu austanstæðri sem menn höfðu í fangið austur eftir brautum. Þrátt fyrir góðan félagsskap og næg umræðuefni kom þar að Skrifari sagði og andvarpaði: "Það er ekki laust við að maður sakni Bjarna." Kvað blómasali það ekkert undrunarefni, því að bæði væri maðurinn skemmtilegur og ljúfmenni hið mesta. 

Nú kunna menn að furða sig á því hversu undan hefur dregist að rita pistla og greina frá því helsta er gerist á hlaupum. Því er til að svara að eftir að þeir Ágúst Kvaran og Þorvaldur Gunnlaugsson hættu að hlaupa með okkur GERIST EKKERT frásagnarvert. Það dettur enginn lengur og slasar sig, né heldur hlaupa menn á umferðarskilti eða gleyma að setja bíla sína í handbremsu fyrir utan leikskóla borgarinnar. 

Á hlaupum gerast menn spakir. Við ræddum um fólkið sem er á stöðugum þeytingi úr einu starfi í annað, einu húsnæði í annað betra, einu hjónabandi í annað betra, einu landi til annars sem hagstæðara er að búa í. En menn átta sig ekki á því að í öllum þessum flutningum vill gleymast að það er sami hausinn sem flytur með manni hvert sem farið er. Þennan sama haus mætti grandskoða þegar vandi steðjar að og menn vilja leita yfirborðslegra lausna.  

Svona var nú malað þegar hlaupin var hefðbundin sunnudagsleið fram hjá Tobíasi og þeim hjónum. Við vorum samt bjartsýnir og vonumst til þess að Laug opni nk. fimmtudag, 15. april. Þá verða menn og konur að fara að gyrða sig í brækur, spenna á sig skúana og leggja braut undir sóla. Í gvuðs friði.


Glæsileg endurkoma

Nú um nokkurt skeið höfum við helstu drengirnir í Vesturbænum þvælst um eins og höfuðlaus her og vart vitað í hvorn fótinn við ættum að stíga. Höfum samt mætt og haldið úti hlaupum í þeirri von að við værum þrátt fyrir allt á réttri leið. Svo gerist það skyndilega að Vesturbæjarlaug opnar dyr sínar fyrir gestum eftir tveggja mánaða lokun. Boðað er til hlaups frá Laug á sunnudegi og hvað gerist? Haldið ekki að bæði Magnús Júlíus og sjálfur Ó. Þorsteinsson Formaður til Lífstíðar, mæti í hlaupið, galvaskir, reifir og tilbúnir í slaginn, auk okkar Einars blómasala og Friðriks. Eðlilega urðu fagnaðarfundir og tekin góð stund á Plani til þess að ræða málin og undirbúa hlaup. Hvílík endurkoma!

Niðamyrkur er á kl. 9:15 að morgni og náttblindir eins og blómasali útrústaðir með skæru handljósi. En nú styttist í stytsta sólargang og eftir það liggur þetta bara upp á við með aukinni birtu sólar dag frá degi. Núna var sumsé myrkur og á Ægisíðu er algjört myrkur. Því má passa sig að hlaupa ekki niður aðvífandi hlaupara, sem ævinlega eru svartklæddir og ljóslausir, að ekki sé minnst á Spandexliðið á reiserunum sem kemur á háskalegum hraða, helst á göngustígnum, grenjandi: "Farið frá! Við erum í tímatöku!!"

Á sunnudögum er ævinlega farið hefðbundið og var svo einnig nú. Sagðar voru fallegar sögur, sumar hverjar jafnvel hjartnæmar, enda viðeigandi á aðventunni að blanda slíku efni saman við annað efni þjóðfræðilegs eðlis. Hiti úti 8 gráður, auð jörð, færi aldeilis frábært, en einhver gjóla við flugvöll. Og þetta er í miðjum desember! Elstu menn muna vart eftir öðru eins blíðviðri á þessum árstíma.  Hlaup gekk því tíðindalítið fyrir sig, staldrað við á heppilegum stöðum til myndatöku eins og farið er að tíðkast. Ekki er ósennilegt að myndir verði birtar á fésbókarsíðu Samtaka Vorra.

Leiðin lá um Ægisíðu, Flugvöll, Nauthólsvík, Kirkjugarð, Veðurstofuhálendi, Klambra og hefðbundið um Laugaveg tilbaka til Laugar. Þar er grímuskylda í anddyri og því nauðsynlegt fyrir hlaupara að hafa grímuna tiltæka allt hlaupið svo bregða megi henni fyrir vit er komið er tilbaka. Í Pott mættu Einar Gunnar og Mímir og spruttu upp áhugaverðar umræður um matreiðslu á ekta schnitzel eins og hún mun vera iðkuð í hinu sósíalistíska eldhúsi við Skúlagötu. Hvar af einnig umræða um vin okkar sem þangað sækir sér næringu.

Minnt er á utanvegahlaup Samtaka Vorra frá Boðaþingi 18 nk. laugardag 19. desember kl. 9:00 stundvíslega.  

 


Hlaupið í garðinum

Það hlýtur að teljast til tíðinda að sl. laugardag var boðað til utanvegahlaups á vegum Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Var ætlunin að hlaupa í garðinum hans Ágústs Kvarans í Boðaþingi, sem svo er kallaður. Nokkrir hlauparar boðuðu komu sína og mættu auk prófessorsins Frikki, Einar, Ólafur Gunn, Ólafur skrifari og Maggie. Vilborg og Ólöf gengu.

Nú bregður svo við að er komið er í Boðaþingið, sem tilheyrir algjörum útjaðri byggðar á höfuðborgarsvæðinu, verður fyrst fyrir húsnæði Hrafnistu og munu tvær grímur hafa runnið á margan hlauparann þegar leit út fyrir að það þyrfti að banka þar upp á og spyrja eftir hr Kvaran. En af óbilandi trú á æsku og þrek prófessors Fróða álpuðust menn nú aðeins lengra og kom þá í ljós að karl býr á fimmtu og efstu hæð í nútímalegu fjölbýlishúsi fyrir heldra fólk.

Hlaup hófst í niðamyrkri og fimbulkulda kl. 9:15 að morgni og var steðjað út á túndruna ísilagða, grýtta og erfiða yfirferðar, oft á tíðum upp í móti. Ágúst þekkir leiðir þarna eins og lófann á sér og stýrði mönnum af mikilli gæsku og framsýni, en jafnframt nokkurri græsku, því iðulega bar við að hann segði að brekkan sem farið væri um væri sú síðasta. Kannast menn við þetta? Yfirleitt merkir þetta að það séu ekki færri en tíu brekkur eftir - ef vel lætur.

Frikki, Ágúst og Maggíe fremst og hurfu okkur smjörbubbum iðulega sjónum. Veður gott þótt kalt væri og útsýni af Vatnsendaheiði óviðjafnanlegt. 12 km lagðir að baki, rúmir, með reglulegum stoppum fyrir myndatökur svo minnti á sunnudagstúra með Ó. Þorsteinssyni. Algjörlega frábær hlaupatúr og full ástæða til að hvetja félaga til þátttöku næst þegar farið verður, laugardaginn 19. desember kl. 9:00. Í næsta nágrenni er Heiðmörkin sem býður upp á endalausa möguleika til hlaupa.


Hlaupið um nætur

Nú þegar Vetur konugur hefur haldið innreið sína og appelsínuguli fáráðurinn í Hvíta húsinu hefur fengið afhent brottfararspjaldið sitt halda menn ótrauðir áfram hlaupum sínum. Helst er frá hlaupum að segja sem gerast þegar venjulegt fólk hvílir höfuð á kodda, 6:02 á morgnana, í niðamyrkri svo menn sjá vart handa sinna skil. Þegar lokað er í Laug Vorri er boðið upp á aukna þjónustu sem felst í því að valdir hlauparar eru sóttir heim að dyrum og farið með þá einn hring um bæinn áður en þeim er skilað heim aftur. Einkum eru það Einar blómasali og Frikki sem hafa nýtt sér þessa þjónustu. Hafa menn þá gjarnan verið leystir út á Grenimel með kaffibolla í morgunsárið. Ekki er nú sosum farið langt, 7-8 km, á hægu tölti, rétt til að ná að halda sér í formi fyrir þá tíma þegar höftum á friðhelgi einkalífsins verður aflétt og við fáum að njóta fulls einstaklingsfrelsis á ný.

Þessutan kemur fyrir að menn spretti úr spori á hefðbundnum brottfarartímum af Stétt, 17:30 mánudaga og miðvikudaga, og 16:30 á föstudögum. Þá kemur fyrir að Ólafur Gunnarsson sláist með í för, og jafnvel Baldur Tumi. Svo gerðist það sl. sunnudag þegar hlaup var boðað kl. 8:30 með fullkominni grímuskyldu að prúðmennið Magnús Júlíus mætti til hlaups - og var raunar sá eini með grímu. Hinir voru Einar og Ólafur skrifari. Aðrir sváfu á sitt græna. Þá var farinn hefðbundinn sunnudagshringur utan hvað Maggi beygði af við Hlíðarfót. Var ekki að sjá að hann væri úr þjálfun eða kominn á áttræðisaldurinn.

Þegar skrifari vill hreyfa sig eitthvað að ráði og upplifa e-a áreynslu sem heitið getur fer hann einn og þá 12-14 km á 6 mín meðalhraða. Fór t.d. sl. laugardag kl. 7 að morgni áður en ljóst var orðið af degi. Hljóp Ægisíðu, um Skerjafjörð, og var rétt lentur í flasinu á ca 20 manna hlaupahópi sem hljóp þétt saman þvert ofan í tilmæli sóttvarnalæknis og allir svartklæddir. Þá varð undirritaður hissa. Þá var farinn Þriggjabrúa.

Svona heldur þetta áfram, þrátt fyrir pestina. Áfram er hlaupið undir fána Lýðveldisins.  

 

 


Hauströkkrið yfir mér

Senn líður að hausti. Hlauparar dusta rykið af skóm sínum, draga fram dulur sínar úr skápum og hefja undirbúning hausthlaupa. Í gær safnaðist harðsnúinn hópur hlaupara saman við VBL og þreytti hlaup á Nes. Var þar á ferð Jóhanna með drengina sína, Einar, Óla Gunn og Frikka. Á sunnudeginum hlupu Einar, Frikki, Rúna og Ólafur skrifari frá Gjábakka, eða því sem næst, til Apavatns í einmunablíðu með sundlaugarferð attaní og grilli á eftir í bústað Einars. Og þess má geta að í morgun þeysti skrifari af nýju um götur borgarinnar kl. 6:02 í fullkominni einsemd og örfáir reykspúandi launamenn á leið til vinnu þeir einu sem hann mætti. Ný vinátta kviknaði við Kristskirkju þar sem menn signa sig, skrifari og pólskur sorphirðumaður sameinuðust í tilbeiðslu á sköpunarverkinu. Lífið er gott og haustið býður upp á spennandi tækifæri til hlaupa og uppbyggilegra samræðna meðan á þeim stendur. Í gvuðs friði.


Sumarhlaup hafin

Æskulýðsstarf í Hlaupasamtökum Lýðveldisins stendur með miklum blóma þessi missirin. Því til staðfestingar mættu fjórir af unglingum Samtaka Vorra til hlaupa í gær, miðvikudag, kl. 17:30. Mikið vildi ég til gefa að geta sagt "stundvíslega" - en sumum verður víst seint kennd listin að lesa af armbandsúri eða yfirleitt að átta sig á tilganginum með notkun slíks gripar. Við stóðum sumsé nafnar tveir og opinberir starfsmenn, Ólafur skrifari og Ólafur Gunn, og skeggræddum. Veltum m.a. fyrir okkur líkunum á því að Bjarni mætti og þá í hvers konar útrústningu. Varla höfum við sleppt orðunum þegar grá Benz-bifreið rennir í hlað með miklum fyrirgangi og út stekkur nefndur Bjarni í fullum herklæðum, stuttum buxum og hlaupajakka. En ekkert bólar á blómasala, sem þó hafði stefnt okkur öllum til hlaups og bætt við af röggsemi "og engar afsakanir!".

Við rennum af stað formælandi þessum vini okkar, hvers konar slugsari og draugur þessi maður sé. Varla höfum við farið nema nokkra metra þegar spúsa blómasala verður á vegi okkar og má vart á milli sjá hvert okkar verður furðu slegnara, við eða hún. "Hvar er Einar? Var hann ekki með ykkur?". Við beindum spurningunni til móðurhúsanna og mæltum: "Seg þú oss!". Héldum áfram ferð okkar við svo búið. Ekki það við höfum haft yfir neinu að kvarta, 9 stiga  hiti, sterk sól og nánast logn. Gerast ekki betri veðrin að sumri til hlaupa. Bjarni rólegur til að byrja með, en færðist svo í aukana er á leið, að ekki sé minnst á áhrifin á þennan geðþekka félaga okkar þegar blómasali dúkkar loks upp á Ægisíðunni eins og draugur að nóttu. Þá hófst mikill reiðilestur og fúkyrðaflaumur sem stóð linnulaust nánast allt hlaupið.

Einhverra hluta vegna fór hjólreiðafólk mjög í taugarnar á okkar manni þennan daginn. Ef við mættum slíkum fyrirbærum á leið okkar voru viðkomandi umsvifalaust stöðvaðir og þeim bent á að þeir væru að hjóla þar sem eingöngu væri heimilt að vera gangandi eða hlaupandi - "eins og öll sjáanleg skilti benda til" sagði Bjarni og benti eitthvað út í buskann. Þar á meðal stöðvaði hann eina virðulega og góðlega húsfrú sem var mjög brugðið yfir þessum viðtökum og vissi vart hvaðan á hana stóð veðrið. Það var svona nokkurn veginn við Skítastöð. Reiknuðum við hinir fastlega með að mæta lögreglubíl er komið væri í Nauthólsvík og við inntir skýringa á framferðinu. Við bjuggum til sögu. Hún var nokkurn veginn svona: "Jú, sjáið þið manninnn á stuttbuxunum og bláa hlaupajakkanum sem fer á undan okkur og stöðvar fólk á reiðhjólum. Hann er nefnilega sjúklingur í leyfi frá ótilgreindri deild Landspítalans og við erum gæslumenn hans, en búnir að týna spennitreyjunni. Við vonum að hann hafi ekki orðið til mikilla leiðinda og biðjumst þá innilega afsökunar á framferði hans. En við skulum gæta hans vel." Með svo ágæta sögu töldum við góðar líkur á að fá að halda áfram ferð okkar.

Jæja, við ákveðum að endurnýja kynnin af Suðurhlíðinni og Bjarni tætir upp brekkuna eins og fjallageit, við hinir furðu þungir á okkur. Farið hjá Perlu og niður stokkinn. Afbrigði við Hringbraut, farið yfir á Snorrabraut og upp í Skólavörðuholtið og niður Skólavörðustíg. Myndir teknar við nánast öll minnismerki og síðast á Austurvelli fyrir framan Alþingishúsið. Kannski að myndirnar fáist birtar. Nú voru menn farnir að ræða próf. Fróða og viðbrögð hans er minnst er á Boðaþing í pistlum. Þá hverfur hann af alheimsradarnum líkt og starfsmenn Byko gera unnvörpum þegar menn skjóta þar inn kolli leitandi eftir þjónustu. Því er enn varpað fram þeirri hugmynd hvort gera eigi ferð í sveitina og tekinn hringur um garðinn hans Gústa gamla.

Eins og sést af frásögn er æskulýðsstarf sumarsins komið vel á veg og er þess vænst að fljótlega bætist fleiri ungmenni í hópinn. Í gvuðs friði.


Bjarni - 9,5

Já, ég veit það ekki. Hvað skal segja? Við vorum nefnilega mættir helstu drengirnir - og svo hann Bjarni - til hlaups á föstudegi. Það var skipst á kurteislegheitum og vingjarnlegum athugasemdum, allt þar til er Bjarni kemur brunandi á Benz-bifreið sinni. Ekki hafði hann haft fyrir að klæða sig í hlaupagallann. Nei, hann var í flónel vinnuskyrtu, gallabuxum og einhverju sem gæti gengið sem hlaupaskór. Hann klæddist þó hlaupajakka og kom þannig albrjálaður enda greinilega búinn að liggja með eyrað límt við Útvarp Sögu frá hádegi. Maður náði vart að henda á hann kveðju áður en fúkyrðaflaumurinn var byrjaður að berja hlustirnar í manni utan og bunan stóð út úr honum linnulaust inn að Veðurstofu. Það var Icelandair. "Í tunnuna með þá!" heimtaði Bjarni. Það var Covid. "Já, það er lygi að Trump hafi ráðlagt inntöku á frostlegi!" Og þegar ýjað var að þeim möguleika að Trump væri ekki með öllum mjalla kom mikill pistill um hvað Trump hefði sagt á fyrsta fundi sínum með Nato og hvernig hann og boðskapur hans væri affluttur alla daga á Rúv. Ekki var orði skjótandi á Bjarna í þessum ham, hvað þá að hægt væri að halda uppi rökræðum sem staðið gætu undir því nafni. Við vorum óupplýstir fávitar sem aldrei reyndu að afla sér réttra upplýsinga, heldur lægjum í lygasneplum eins og Washington Post sem fullyrti að einn mánuðinn hefði Trump logið 1800 sinnum (og lygarnar raktar). "Já, en könnuðuð þið nánar fullyrðingar Washington Post? Neeeiiii, það gerðuð þið ekki!"

Við sem komnir vorum til þess að hreyfa okkur mitt í faraldrinum, njóta útiveru, góðs veðurs, góðs félagsskapar og skiptast á vinsamlegum orðum. Hlaupið var mjög krefjandi andlega og við vorum eiginlega eins og sprungnar blöðrur á eftir.

Að öðru leyti var þetta nokkuð gott, hefðbundið föstudagshlaup. Hugur okkar leitaði upp í Kópavoginn, nánar tiltekið í Boðaþing, þar sem við eigum félaga sem hleypur í garðinum hjá sér í algjörri einsemd. Kannski við ættum að kíkja til hans og taka sosum eins og eitt hlaup í Heiðmörkinni, upp á gamlan kunningsskap?

Á leiðinni niður Laugaveg rákumst við Einar á dragtklæddar karríerkvinnur sem voru úti á galeiðunni að njóta lífsins. Ósköp fannst okkur það trist.

Nú hefur Laug Vor verið lokuð í mánuð og menn almennt að missa vitið af þeim sökum. Og boðuð er lokun alla vega mánuð í viðbót. En við verðum að þrauka og höldum úti hlaupaprógrammi voru. Næst verður fast hlaup á morgun, sunnudag kl. 9:15 frá VBL. Vel mætt!


Hlaup á válegum tímum

Tilkynnt hefur verið að Laug Vorri verði lokað á miðnætti í kvöld í nokkrar vikur héðan í frá í þágu baráttunnar gegn veirunni. Hverfur þar með uppsöfnunarstaður hlaupara í Samtökum Vorum, að ekki sé nefnd sturta og pottur eftir hlaup. Hvað gera menn þá? Neita að skera hár sitt og skegg, neita að þrífa sig og bursta tönnurnar? Nei! Við stöndum bein í baki, berum höfuðið hátt og höldum uppteknum háttum okkar. Bara með öðrum formerkjum. Það má velja sér hvern þann punkt í Borgarlandinu sem söfnunarstað fyrir hlaupara þaðan sem hlaupa má vítt og breitt um vaknandi vornáttúru landsins. Ætla má að tillögur þar að lútandi berist á eternum í fyllingu tímans.

Hlauparar hafa verið duglegir að hreyfa sig fyrstu mánuði ársins undir dyggri formennsku foringja vors, Ó. Þorsteinssonar. Það eru aðallega skrifari, Blómasali, Benz og Magnús tannlæknir sem hafa reimað á sig skóna, en aðrir hafa sosum sést, Hjálmar, Ósk, Frikki, Súsanna og Flosi. Það hefur verið farið á hefðbundnum hlaupatímum, mánu- og miðvikudögum kl. 17:30, föstudögum kl. 16:30 og sunnudögum kl. 9:15. Auk þess hafa skrifari og blómasalinn laumast út kl. 6:02 á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum til þess að bæta lítillega í prógrammið. Það meiðir engan.

Á válegum og óvenjulegum tímum er nauðsynlegt að halda í allt það góða og uppbyggilega sem við höfum. Þar gegna hlaup veigamiklu hlutverki. Því er það brýning til allra hlaupara að taka fram skóna og setja hlaup á dagskrá sem að flestu öðru leyti er í tómu rugli. Bráðum kemur betri tíð og aftur kemur vor í dal.

Meira síðar um tíma og brottfararstaði.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband