2.12.2011 | 22:02
Flatbökuveizla Hlaupasamtakanna við Bragagötu
Að loknu hlaupi dagsins var mannskapnum stefnt til hinnar árlegu flatbökuveizlu Hlaupasamtakanna við Bragagötu. Þar er ónn einn góður sem bakar flatbökur á svipstundu. Á staðinn mættu: Helmut og Jóhanna, Flosi, Þorvaldur, próf. Fróði og Ólöf, Denni, Ragnar og frú, Frikki og Rúna, Pétur, skrifari, Bjössi og húnninn, Benzinn, Kári og Guðrún. Góð mæting og var gleðin við völd.
Þótt hvert rúm hafi verið skipað völdum einstaklingi, vakti eftirtekt að ónefndur blómasali lét ekki svo lítið að mæta á staðinn þrátt fyrir yfirlýsingar öndverðrar náttúru fyrr um daginn. Var mörgum getum leitt að því hvað ylli. Fyrstu getgátur voru á þá leið að hann kynni ekki á klukku. Svona geta menn verið illgjarnir!
Skrifari vissi þó að upplýsa að blómasalinn hefði ætlað í sumarhöll sína í Byskupstungum og trúlega hefði hann séð þann grænstan að halda beinustu leið í sveitina í stað þess að vera að staldra við í 101 og eyða peningum í mat sem mætti sem bezt útbúa kominn austur. Alla vega veltu menn vöngum fram og tilbaka um ástæður þess að hinn ágæti félagi okkar léti undir höfuð leggjast að mæta á Fyrsta Föstudegi.
Kvöldstundin var hin ánægjulegasta og nutu menn góðs matar og drykkja á Eldsmiðjunni - haldið var út í nátt og snæ í góðum gír.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.