23.11.2011 | 21:37
Þriggjabrúa í hálku
Veður alvitlaust á hádegi þegar skrifari fékk eftirfarandi sms-skeyti frá villuráfandi blómasala sem telur sér hentara að spóka sig í útlöndum en að vinna á þyngdaraukningu sem er farin að valda áhyggjum í ólíklegustu stöðum:"Langs 2 egils gull og burger king grande meal. Julefrukost í kvöld." Lýsti hann yfir fyrirætlunum um að drekka julebryg í stað þess að hlaupa. Hvað er enda eðlilegra þegar menn eru staddir í Kóngsins Kaupinhafn? Hvar er Jörundur? Af hverju mótmælir hann ekki utanlandsferðum kapítalista?
Þessir mættir: Þorvaldur, dr. Jóhanna, skrifari, Hjálmar, Haraldur, Ósk, Magnús og svo bættist Ragnar í hópinn í myrkrinu á Ægisíðu. Ekki mikil mæting og ljóst að sólskinsnafnbótin ætlar að ná þokkalegri útbreiðslu. Á þessum tímapunkti var veður að mestu gengið niður og orðið stillt, þurrt, en þó svalt, allgott hlaupaveður og var maður feginn að hafa haft rænu á að mæta. Ekki urðu umræður í Brottfararsal um vegalengdir eða leiðir, skrifari tók af skarið og fór út að hlaupa.
Nú er myrkur á Ægisíðu um það leyti sem hlauparar hefja hlaup. Þá er hætt við að hlauparar rekist á gangandi vegfarendur, en slíkri hættu var forðað í kvöld. Farið á þokkalegu tempói, en fljótlega fóru þau hin fram úr skrifara og rann það upp fyrir honum að Hlaupasamtökin væru að skiptast í ólíkar deildir: hraðferð og hægferð, svoldið eins og tvistar og þristar í framhaldsskólunum. Hér áður fyrr hlupu menn saman í hóp og áttu uppbyggilegar samræður, en nú hlaupa hraðafantar fremstir og tala aðeins um eitt: hlaup. Þvílíkur bömmer!
Jæja, skrifari sat uppi með Þorvald af Kleppi og hlupum við þegjandi inn í Nauthólsvík, ekki orð var sagt. Fyrr en Þorvaldur spurði um eitthvað sem ég man ekki lengur hvað var og getur ekki hafa verið merkilegt. Hann lét sig falla til baka um þetta leyti og ljóst að stefndi í styttingu. En skrifari var einbeittur í að leggja að baki ekki færri en 13,6 km í dag. Hann hélt því áfram niður hjá Kirkjugarði og stefndi á Kringlumýrarbraut. Yfir brú og upp hjá Bogga, fór þetta léttilega. Allnokkur hálka á stígum og mátti fara varlega.
Það var Útvarp, Miklabraut, Kringlumýrarbraut í norður og svo Sæbraut. Enginn reyndi að keyra mig niður og var ég því þakklátur. Einhver þreyta fór að gera vart við sig á Sæbraut, en skrifari er í teygjuprógrammi hjá dótturinni út af hamstringinu, sem er búið að vera í tómu tjóni í tvö ár og varð til þess að hann varð að ganga frá Emstrubotnum á Laugaveginum sællar minningar í sumar alla leið í Þórsmörk. Þetta verður til þess að eymslin og sársaukinn vaknar til lífs á ný, en gott að því leyti að það er tekið á málunum, verkurinn tældur upp á yfirborðið og tekizt á við hann eins og Grettir tókst á við Glám forðum.
Jæja, þetta gekk nokkuð vel, farið um verbúðahverfið þar sem veitingastaðir spretta upp eins og gorkúlur. Upp Ægisíðu og svo tilbaka hefðbundið. Pottur stuttur og snarpur, þar var rætt um þýzka representasjón á Íslandi, sem hefur verið misjöfn. Benzinn mættur í Útiklefa óhlaupinn og eiginlega ekki viðræðuhæfur. Ræddar sameiginlegar áhyggjur af ólifnaði ónefndra blómasala.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt 24.11.2011 kl. 20:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.