21.11.2011 | 21:11
Er hjólreiðafólk og hlauparar réttdræpir?
Móðir skrifara sálug hafði ímugust á tveimur stéttum manna: leigubílstjórum og fasteignasölum. Hún fylgdist með blöðum og ef frétt birtist um að óvandaður fasteignasali hefði lent í þeirri ógæfu að svindla á viðskiptavinum og verið dæmdur til afplánunar í betrunarhúsi, hringdi hún gjarnan í næstu fasteignasölu og þóttist vera áhugasamur íbúðarleitandi. Eftir að hafa teymt sölumann á asnaeyrum nokkra stund sagði hún:"En er ykkur fasteignasölum nokkuð treystandi? Var ekki verið að stinga einum ykkar inn í fangelsi í morgun?"
Fasteignasalar koma ekki við þessa frásögn, en leigubílstjórar hins vegar. Er þar fyrstan að telja Bjarna Benz, sem mættur var í Útiklefa uppfullur af ásetningi um hlaup. Aðrir voru: blómasali, barnakennari, Þorvaldur, skrifari, Helmut, dr. Jóhanna, Jóhanna Ólafs, Magga, Jörundur, Guðmundur sterki, Haraldur, Ragnar, Heiðar og Ósk. Manni fannst þetta vera mökkur af fólki og langt síðan svo stór hópur hefur hlaupið saman. Oft eru mánudagarnir fjölmennastir, þá er fólk uppfullt af góðum ásetningi eftir sukk helgarinnar, en svo daprast einbeitingin er líður á vikuna og þá eru það bara við, þessir staðföstu, sem mæta.
Blómasalinn nýkominn frá Washington, barnakennarinn frá Genóu, og ekki var Jörundur að hafa miklar áhyggjur af því. Hann beindi sem fyrr spjótum sínum að skrifara sem er alsaklaus af utanferðum síðustu sex vikurnar. Og svo fer blómasalinn aftur utan á miðvikudag. Jæja, veður fer kólnandi, hríðarhaglandi fyrr um daginn og stefndi í hálku. Ákveðið að fara austur Ægisíðu og stefna á Öskjuhlíð. Ekki ljóst hvað skrifari ætlaði að gera. Lenti í slagtogi við Helmut, sem sagði farir sínar ekki sléttar. Hann lenti í því í hjólreiðatúr sl. föstudag að það var ekið á hann inni í Sigtúni. En kurteis sem hann er bað hann ökumanninn afsökunar á að hafa verið að þvælast fyrir honum og kvaðst vona að bíllinn hefði ekki skrámast. Þrátt fyrir þessa limlestingu var hann mættur til hlaupa daginn eftir og fór 20 km úr Laugardal.
Eðlilega var hiti í mönnum að heyra svona sögur af tillitsleysi og ólæsi ökumanna á sitt nánasta umhverfi. Þeir sem vildu hraða för sinni í Öskjuhlíðina fóru fremstir og er líklega óþarfi að nefna nöfn; svo komu minni spámenn eins og við Helmut, Guðmundur og Þorvaldur, og á eftir okkur heyrðist í Bjarna Benz, Jörundi og blómasalanum, en þeir þögnuðu eftir 2 km. Í Nauthólsvík rákumst við á Flosa og það var ákveðið að fara Suðurhlíð. Helmut alltaf sterkur í brekkunni og skildi aðra eftir, við hinir eins og mæðiveikirollur á eftir.
Efra var dimmt og varð að fara varlega við Stokk og niður hjá dælustöð og niður að Flugvallarvegi. Svo var farið á góðu tempói um Hringbraut tilbaka. Við Þorvaldur héldum hópinn og hægðum á okkur er við komum að Sóleyjargötu. Þar kom leigubíll aðvífandi og hægði á sér, að því er við skildum, til þess að hleypa okkur yfir. Þorvaldur af stað, en þegar hann er framan við leigubílinn ætlar hann að rífstarta, Þorvaldur gerir vart við sig og leigubíllinn verður að snarstanza, en bílstjórinn leggst á flautuna frekar en ekki neitt. Við formælum honum ákafliga, og hefðum líklega dregið hann út úr bílnum og lamið hann ef við hefðum ekki verið hlaupandi séntilmenn. Oft hefur hurð skollið nærri hælum á viðburðaríkri hlaupaævi Þorvaldar félaga okkar, en ég hygg að aldrei hafi hann verið nær því að láta keyra yfir sig en í kvöld.
Jæja, það var farið á þokkalegu tempói tilbaka. Kom í ljós að þeir Jörundur, Benzinn og blómasalinn höfðu stytt. Almenn ónot á Plani. Heitur pottur að loknu hlaupi og nú fer þetta að verða algjör lúxus því það er farið að kólna í veðri og gott að komast í ylinn. Hálka á hlaupabrautum.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.