14.11.2011 | 20:24
Daðrað við desítonnið
Í töflubók Hlaupasamtaka Lýðveldisins jafngildir desítonn 100 kílógrömmum. Alla jafna eru ekki margir hlauparar í námunda við þann líkamsþunga. En þessi missirin eru þó sumir farnir að halla hættulega mikið í þá áttina, farnir m.ö.o. að daðra við desítonnið. Af minna tilefni hefur verið sagt við menn af þessari alkunnu nærgætni sem við félagar Samtakanna erum svo þekktir fyrir: "Djöfull ertu orðinn feitur!" Jæja, fyrr á þessum degi heyrðist landskunnur blómasali hafa yfir heitstrengingar um hlaup í dag til þess að vinna gegn þyngdaraukningu undanfarinna vikna. En hvað gerist: enginn blómasali þegar safnast var saman í hlaup kl. 17:30. Mætt: Maggi, Flosi, Magga, dr. Jóhanna, Helmut, Ósk, skrifari og Heiðar sálfræðinemi, síðar bættust Jóhanna Ólafs, Haraldur og Frikki kaupmaður í hópinn, en það er búið að banna þeim síðastnefnda að hlaupa.
11 stiga hiti, uppstytta og einhver vindur. Orðið aldimmt þegar hlaupið er. Haldið upp á Víðimel og þaðan Suðurgötu og suður úr á allhröðu tempói. Skerjafjörður og svo fórum við Helmut og Maggi austurúr, og Flosi þar fyrir framan. Aðrir hafa líklega haldið á Nes. Það var einhver mótvindur þarna, en ekkert til þess að gera veður út af. Við vorum nokkuð sprækir og héldum góðum hraða út í Nauthólsvík, þar sem sást til Flosa fara Hlíðarfót og Maggi hélt í humátt á eftir honum. Við Helmut vorum staðráðnir að fara Suðurhlíðar en liggja dauðir ella.
Brekkan var engin fyrirstaða, það var keyrt upp á fullu tempói, upp að Perlu og þaðan áfram niður stokkinn í myrkrinu. Eftir þetta var hlaupið bara sæla og var gott að taka vel á því á Hringbrautinni. Hér varð manni hugsað til þess digra, mikið hefði hann haft gott af því að renna skeiðið í dag! Skyldi honum ekki líða illa að hafa misst af hlaupi?
Teygt vel og lengi á Plani og í Móttökusal. Þau hin komu tilbaka um svipað leyti og við, útkeyrð eftir spretti. Umræður í Potti skiptust í tvennt. Blómasalinn ræddi um klósett, upphengi, málningu og veraldlegar eigur. Dr. Jóhanna talaði um Heimsljós Nóbelsskáldsins og klassíska snilldina í verkum hans. Svona eru áhugasviðin ólík í hópi vorum og ekkert um það að segja.
Það má lengja lítillega á miðvikudag.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.