30.10.2011 | 16:41
Af gömlu fólki
Hinn 12. nóvember n.k. verða liðin 100 ár frá andláti lang-langafa okkar Ólafs Þorsteinssonar, Ólafs bæjarfulltrúa Ólafssonar og Danabrókarmanns, fædds 1831. Um þetta var rætt er við frændur hittumst framan við Vesturbæjarlaug, sem enn er lokuð á sunnudögum til kl. 11 og enn drífur fólk að sem ekki veit af því. Við vorum tveir einir að hlaupi líkt og síðasta sunnudag, og var þó ekki hægt að kvarta yfir veðri. Við dokuðum við um stund, en héldum svo af stað í hefðbundið sunnudagshlaup.
Eðlilega var rætt um ættfræði og persónufræði og gat frændi upplýst mig um gamlar Lækjarkotsfrænkur hans megin í ættinni og um afdrif þeirra. Þetta var mikilvirkt handverksfólk, eins og þær eru frænkurnar mín megin í ættinni. Einnig var rætt um fjarverandi hlaupara og ættir þeirra. Ég gat frætt frænda um svör Jörundar við fyrirspurn minni á föstudaginn um hvers vegna hann hefði ekki heilsað okkur í síðasta sunnudagshlaupi. Ólafur varð hugsi um stund, en kvað svo upp úr með það að þetta væri klárlega Allinn að herja á félaga okkar. Á því væri ekki nokkur vafi.
Ekki verður sagt að óvæntir viðburðir hafi átt sér stað í þessu hlaupi, það voru kunnuglegir áfangar, Nauthólsvík, Kirkjugarður, Veðurstofa, Saung- og skákskóli, Klambratún og svo Sæbraut. Stoppað á hefðbundnum stoppustöðum. Að þessu sinni var þó talin ástæða til þess að doka við framan við hinn nýja Þór og berja þann glæsilega farkost augum.
Í Pott mættu auk hlaupara dr. Einar Gunnar, Ragna Briem, Helga Jónsdóttir og Stefán Sigurðsson - og svo kom Einar blómasali og kvaðst hafa látið fjölskylduna ganga fyrir þennan morgun. Hann snaraði umbeðinn fram forláta kjúklingauppskrift sem Helga kvaðst mundu notfæra sér. Málin rædd framundir eitt, að menn tíndust úr Potti til skylduverka. Enn einn frábær hlaupamorgun að baki.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.