Frá Englandsför

Fagur sunnudagsmorgunn var upp runninn, en aðeins tveir frændur mættir til hlaupa við Vesturbæjarlaug, sem enn er lokuð á sunnudagsmorgnum til kl. 11. Við Ólafur Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, runnum skeiðið léttilega og fyrirhafnarlítið, enda vel á okkur komnir þótt vinalausir séum. Hann sagði mér frá Englandsför sinni sl. helgi þegar hann fór að horfa á Arsenal leika á móti Sunderland. Tækifærið var notað til þess að rifja upp kynnin við allar betri herrafataverzlanir, svo sem Cecilius C í Shrewsbury Avenue, þar sem menn báðu fyrir kveðju til Vilhjálms Bjarnasonar, þess sem innhöndlaði jarðarfarahabít í búðinni með ógleymanlegum hætti árið 1979. Sama var upp á teningnum í öðrum verzlunum, alls staðar var spurt um Vilhjálm og hagi hans.

Nú gerist það að við hittum Gunnlaug Júlíusson hlaupakappa, gerum stuttan stanz og eigum við hann spjall. Hann hefur átt við meiðsli að stríða og tók því ekki þátt í Haustmaraþoni í gær. Áfram er haldið og næst verður á vegi okkar Jörundur Svavar Guðmundsson, prentari og hlaupakappi, trúlega að koma úr 20 km hlaupi, alla vega var hann svo aðframkominn af þreytu eða Allinn langt genginn, að hann lét sem hann sæi okkur ekki og sinnti ekki kveðjum okkar. Við áfram. Rætt um afbragðsárangur okkar fólks í maraþoninu í gær.

Dagurinn var einstaklega vel fallinn til hlaupa, stillt, bjart, heiðskírt og hiti um fjórar gráður. Tókum okkur hefðbundin gönguhlé á gefnum stöðum og tókum þetta á rólegu nótunum. Ekki voru margir á ferli og fátt er bar til tíðinda enda einstakir heiðursmenn og grandvarir á ferð.

Í Potti varð hefðbundin umræða um bílnúmer og persónufræði, en einnig vikið lítillega að byggingastöðlum og lofthæðum húsa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband