Skóviðgerðir milli jökla - Fimmvörðuhálsganga 2011

Árleg ferð Hlaupasamtaka Lýðveldisins á Fimmvörðuháls laugardaginn 3. september 2011. Mæting stundvíslega kl. 7:00 við Vesturbæjarlaug. Ekið sem leið lá austur að Skógum á lítilli, 30 manna háfjallarútu. 15 þátttakendur: Flosi og Ragna, Helmut og Jóhanna, Kalli og Guðrún, Jörundur og Anna Vigdís, Kári, Biggi og Unnur, Einar blómasali, Ólafur skrifari, pólska mærin Anya og Þorbjörg. Tíðindalítið austur. Veður gott, logn, þurrt og 12 stiga hiti. Lagt í hann upp þrepin mörgu upp á fjallið. Biggi berháttaði sig við hvern foss og Jörundur tók myndir af honum framan við hvern og einn þeirra.

Það fór að rigna, en þó ekki mikið, þetta er það sem Svíar kalla duggregn. Gangan gekk áfallalaust fyrir sig framan af. Farið yfir brú á Skógá. Þar var búið að koma niður nýjum stikum sem voru nær ánni en veginum og lengdi gönguna nokkuð. Við ákváðum að fylgja stikunum, þótt það væri breyting frá fyrri hefð. Blómasalinn kominn með hælsæri, enda á eldgömlum gönguskóm sem standast ekki kröfur nútímans. Kári klastraði á hann gelplástri. Svo var haldið áfram.

Ekki höfðum við farið langt þegar aftur þurfti að búa um hælsærið, en í þetta skiptið tók Anna Vigdís til sinna ráða, batt um af fagmennsku og eftir það var hællinn ekki til vandræða. Við reyndum að halda hópinn eftir fremsta megni, en auðvitað dró í sundur með fólki eins og verða vill. Við Flosi komum fyrstir að skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi (hvar svo sem sá góði staður er!) og var brekkan upp að skála frekar erfið eftir langa göngu. Sáum jeppa fastan í ís og drullu neðan við skála. Töldum víst að þarna hefði einhver unglingur af mölinni farið of gáleysislega í jeppaleik. Á daginn kom að það var skálavörðurinn sem átti jeppann og hafði sprungið á honum.

Gott að koma í hús og ylja sér, fá heitt vatn í bolla og setja súkkulaðiduft út í. Þarna hvíldum við í góðan hálftíma. Er blómasalinn kom í hlað höfðu skósólar skúa hans losnað. Hann brást við með því að negla annan sólann fastan, en límdi hinn með límbandi. Það var mikið hlegið að honum á þessum útbúnaði.

Hér vorum við stödd á hæsta punkti og því var lægra hitastig hér en við upphaf göngu og fannst það. Það tók nokkurn tíma að fá í sig hita á ný, en við ákváðum að fara inn á gömlu leiðina. Ekki höfðum við lengi farið þegar við komum inn á eldstöðvasvæði Eyjafjallajökuls, sáum eins árs gamalt hraun sem enn rauk úr og þá Móða og Magna, gígana sem spúðu hrauni og gjalli, fórum upp á nýtt fjall sem enn var snarpheitt. Var þetta sannarlega hápunktur ferðarinnar.

Nú fór að styttast í annan endann á ferðinni og enn voru skór blómasalans til vandræða. Það var gripið til þess ráðs að binda sóla upp með reimum sem Biggi hafði með sér. Það var farið um kunnuglegar slóðir, staldrað við á Heljarkambi og rifjað upp slys á Hvítasunnu 1970 þegar þrjú ungmenni urðu úti í aftakaveðri. Svo var Morinsheiðin og Kattarhryggir. Er niður var komið var upplýst að blómasalinn hafði bundið upp skó sína með húfu Bigga. Þannig lauk hann hlaupi og var mikið hlegið að honum við komu í Bása.

Ferðin gekk vel að öðru leyti og tók 10 tíma. Um kvöldið var svo slegið upp veizlu, grillað, etið, drukkið, sungið og í lokin var kveikt í gönguskóm Einars niðri á eyrum neðan við Skagfjörðsskála. Kári svaf vel í öndunartæki sem tengt var við rafgeymi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þess skal getið að ég gaf samskonar skó og blómasalinn gekk í á Byggðasafnið á Skógum fyrir nokkrum árum.

Jörundur (IP-tala skráð) 5.9.2011 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband