Sunnudagshlaup - pissað við vitlaust tré

Mæting kl. 10:10 á sunnudagsmorgni í Hlaupasamtökum Lýðveldisins og enn er Laug lokuð. Mættir: Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Flosi, Þorvaldur, Magnús og skrifari. Upplýst um nýjustu símhringingar, úr garði Móniku í Merkigili að þessu sinni þar sem virtur félagi okkar naut gestrisni nafngreindra aðila og fylgdi fullur matseðill með ásamt vínseðli. Við bentum Ó. Þorsteinssyni á að líklega væri Mónika sjálf látin í a.m.k. 30 ár. "Ja, það er ekki svo nákvæmt með það" svaraði hann að bragði.

Sunnudagshlaup eru rólegheitadól, mikið spjallað saman um málefni samtímans, fólk og viðburði. Að þessu sinni var rætt um afhendingu Guðmundarbikars n.k. mánudag kl. 17:15. Jörundur hefur lagt mikla vinnu í að hafa samband við aðskiljanlega aðila sem tengjast málinu og gæti þetta orðið merkilegur viðburður. Hvatt er til þess að fólk mæti af þeirri ástæðu tímanlega til hlaups. Magga ætlar svo að finna góða 10 km leið fyrir okkur að hlaupa um Vesturbæinn.

Við mættum einmitt téðri Möggu í Skerjafirðinum þar sem hún kom á fullu stími á móti okkur. Stoppað stutt og þau Jörundur krunkuðu sig eitthvað saman, svo haldið áfram. Skrifari eitthvað þungur á sér og ekki líkt því eins sprækur og sl. föstudag þegar hann sprengdi prófessorinn. Nú rétt gat hann haldið í við afgamla karlhlunka. Já, dagsformið, það lætur ekki að sér hæða.

Gengið í Nauthólsvík eins og hefðin býður. Að því loknu voru Flanir lagðar að velli, Kirkjugarður, Veðurstofa, Hlíðar og Klambrar. Þar varð sá atburður að ónefndur tannlæknir ákvað að létta á sér áður en komið var að þeim gróðri sem hann hefur haldið trúnað við um langt árabil. Olli það almennri hneykslan og uppnámi í hópnum, en tannsi hafði engar skýringar á reiðum höndum um þetta afbrigði.

Eftir þetta drógust Formaður og skrifari aftur úr hópnum og dóluðu tilbaka með stoppum á réttum stöðum. Meðal þess sem bar á góma var sá atburður er Geir Ólafs tók að sér að flytja Hamraborgina óumbeðið í Hörpu í gærkvöldi. Fólk hafði setið grallaralaust heima hjá sér og svo birtist þessi Frank Sinatra gaulari á sjónvarpsrúðunni og byrjar að misþyrma einhverju karlmannlegasta saunglagi sem til er í gervöllum, íslenzkum tónbókmenntum! Hvílík hörmung! Var þetta á allra vörum þennan morgun.

Hlaupið hjá Hörpu og um hið skemmtilega hafnarhverfi sem er að spretta fram við Ægisgarð. Rólega til Laugar. Í Pott vantaði nokkra af helztu spekingum Samtakanna, bæði dr. Einar Gunnar og dr. Baldur, og var hann af þeirri ástæðu með daufara yfirbragði. Þar birtist hins vegar Einar blómasali og kvaðst hafa þá afsökun fyrir því að mæta ekki í hlaup að hann hefði nærri fótbrotnað við störf í sumarbústaðnum í gær. "Nærri? Hvað áttu við með "nærri"?", spurði Formaður. "Annað hvort fótbrotna menn eða þeir fótbrotna ekki. Og ef þeir eru ekki fótbrotnir, þá hlaupa þeir!" Á þessum nótum mættum við þessum lata félaga okkar, sem tekur lystisemdir lífsins fram yfir útiveru og íþróttaiðkun.

En sumsé: mánudagur 29. ágúst kl. 17:15. Brottfararsalur. Guðmundarbikar. Vel mætt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband