Rólegt afslöppunarhlaup eftir RM

Nýtt embættisheiti varð til laugardaginn 20. ágúst sl. þegar embætti (aðal)ritara Hlaupasamtakanna var lagt niður í veizlu sama aðila, en upp var reist embætti skrifara í anda sjálfstæðishetjanna frá nítjándu öld. Verður héðan í frá vísað til skrifara Hlaupasamtaka Lýðveldisins.

Yfirleitt er rólegt að afloknu Reykjavíkurmaraþoni og hlauparar taka sér góðan tíma til þess að slaka á, hvílast og jafna sig eftir afrek helgarinnar. Engu að síður voru nokkrir afrekshlauparar mættir til hlaups hjá Hlaupasamtökunum í dag og skal fyrstan telja Jörund Guðmundsson, Íslandsmeistara í maraþonhlaupi öldunga 70 ára og eldri 2011, Ágúst Kvaran, Benzinn kominn á sjötugsaldurinn, dr. Jóhanna, Helmut, Flosi, Þorvaldur, Ólafur skrifari, Ragnar, Rakel, Einar blómasali seinn að vanda, Þorbjörg og Dagný. Gummi Löve mætti okkur er Hofsvallagötu.

Lagt upp á rólegu nótunum í veðurblíðu síðsumars, en áður en varði var búið að setja upp tempóið. Þar sem engir eru þjálfararnir þurfa hlauparar sjálfir að ákveða vegalengdir og voru ýmist nefndir 8, 10 eða 14 km. Hlíðarfótur, Suðurhlíð eða Þriggjabrúa. Við þessir skynsömu vorum á því að fara milliveginn, 10 km. Maður er stirður og þungur eftir keppnishlaup og það tekur tíma að hita sig upp. Það var ekki fyrr en komið var í Nauthólsvík að þessi hlaupari var orðinn sæmilega heitur og góður.

Er hér var komið hlupum við saman Jörundur, Ragnar, skrifari, Dagný og blómasalinn. En þegar við komum að Kringlumýrarbraut héldu þau Dagný og blómasali yfir brú, en við hinir settum stefnuna á brekkuna upp Suðurhlíð. Við öskruðum á blómasalann og sögðum honum að stefna ekki út í einhverja vitleysu, en hann hafði ráð okkar að engu. Kom það honum í koll síðar með eftirminnilegum hætti. Meira um það seinna.

Sem fyrr segir vorum við orðnir vel heitir er hér var komið og við linntum í engu látum í brekkunni upp að Perlu og voru vitni að því Benzinn, Þorvaldur og Rakel sem komu í kjölfar okkar. Við félagarnir héldum áfram að bæta í og vorum á góðu, hröðu tempói niður hjá Gvuðsmönnum, hjá flugvelli og alla leið tilbaka til Laugar. Meðaltempó um 5:30.

Eftir tíðindalítinn Pott fór skrifari í Útiklefa á leið upp úr. Þar mætti hann blómasala sem bar sig illa. Dró upp skálm á hlaupabuxum og afhjúpaði blóðugt hné. Hafði hann ofgert sér í löngu, hröðu hlaupi og hratað í götuna fyrir framan Alþingishúsið. Hér leið skrifara vel að geta sagt: "I told you so!"

Félagsmáladagskrá Hlaupasamtakanna er fullbókuð. Framundan er Fimmvörðuháls 3. september og tveimur vikum síðar er hið árlega Reykjafellshlaup.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband