10.8.2011 | 21:35
Frá Laug til Laugar
Tíðindalítið í aðdraganda hlaups með Hlaupasamtökum Lýðveldisins á miðvikudegi. Mættir: dr. Friðrik, Magnús, Helmut og Jóhanna, Ragnar, Guðmundur, Ólafur ritari, Einar blómasali, Kári og René. Frikki bættist í hópinn á leiðinni eins og menn bjuggust við. Furðu vakti að tveir menn sem lýst höfðu yfir ásetningi um langt hlaup lýstu með fjarveru sinni: Flosi og prófessor Fróði.
Almennt voru hlauparar inni á að fara Þriggjabrúa, en ritari og Frikki voru ákveðnir í að fara upp að Árbæjarlaug. "Af hverju?" var spurt. "Af því það er gaman." Ekkert flóknara. Lagt upp á rólegu nótunum í gassandi sumarhita, fyrst voru Jóhanna og René, svo Guðmundur, Ragnar og ritari - og aðrir á eftir. Rætt um vegalengdir í Reykjavík og myndun sveita.
Það leit út fyrir að það gæti orðið ansi heitt og því eðlilegt að hvarflaði að ritara að endurskoða vegalengd dagsins, en það var nægur tími til þess. Farið á góðu tempói inn í Nauthólsvík og áfram hjá Kirkjugarði út að Kringlumýrarbraut. Eftir brúna skildu leiðir með okkur Helmut, hann fór upp brekku, en ég hélt áfram í Fossvoginn og sá Frikka framundan. Eftir það sá ég enga vinveitta hlaupara. Einsemdin var algjör.
Þetta stefndi í að geta orðið gott hlaup, góður hraði og ritari í fínu formi. Fór inn að Víkingsheimili á 40 mín. Við Stíbblu tók ég gelið mitt (hafði skellt einu bréfi í mig fyrir hlaup), hélt svo áfram upp að Árbæjarlaug. Þar bætti ég vatni á brúsa, en tafði ekki lengi, hélt áfram niður dalinn. Enn var tempó fínt og var kominn að Breiðholtsbraut 18:56. Stefndi að því að vera kominn til Laugar ekki síðar en 20:00 til þess að geta eldað kvöldmatinn fyrir frúna.
Það sem eftir lifði hlaups var tekið með trompi, engin stopp nema til að drekka, ekkert gengið. Fór allar brekkur skokkandi og bætti aðeins vatni á mig í Nauthólsvík, en sleppti sjóbaði. Svo voru það bara kílómetrarnir fjórir eftir það og þeir steinlágu! Mætti Möggu og Jóhönnu Ólafs á Ægisíðunni, þá voru þær greyin að leggja í hann. Hitti svo Sif Jónsdóttur langhlaupara við Laug. Aðrir voru farnir úr Laug, svo ekki hefur mikill metnaður verið lagður í afrek dagsins.
Niðurstaðan eftir hlaup dagsins: maðurinn er bara að komast í fantaform og mun taka á því í Reykjavíkurhálfmaraþoni.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.