Afbrigði

Í löngu bílskúrsspjalli gærdagsins milli ritara og blómasala varð það niðurstaðan að stefna á hlaup í dag, fimmtudag, þar eð báðir höfðu misst af miðvikudegi, af ólíkum ástæðum. Blómasalinn tók að sér að hafa samband við Bjarna Benz og boða hann til hlaups. Hann gleymdi því. Hlaup boðað í netpósti og mættu auk framangreindra Þorvaldur og Jörundur, og höfðu báðir hlaupið miðvikudag.

Stefnan sett á Þriggjabrúa, en Jörundur og Þorvaldur vildu láta sér nægja Suðurhlíð. Við upphaf hlaups var fluttur langur pistill um ófarir Formanns til Lífstíðar í Norðurleiðangrinum, og var sagan nú svo breytt í munnlegri geymd að hliðin fór úr bílnum í heilu lagi, en handlaginn Norðanmaður henti sér á hliðina og pressaði hana í aftur á réttan stað svo hægt væri að aka bílnum suður. Töldu sumir viðstaddra sem höfðu heyrt söguna öðruvísi tímabært að bera þessa útgáfu undir Formann og fá staðfest hvort rétt væri.

Í Skerjafirði byrjaði gamalkunnur barlómur milli þeirra Jörundar og blómasala um harðan atgang innheimtumanns ríkissjóðs, hann hirti allt af þeim, fátækum barnamanni og ellilífeyrisþega, meðan ríkisstarfsmönnum væri haldið uppi á milljónatekjum, utanferðum og dagpeningum. "Og þetta borgum við allt saman," sagði Jörundur. Ritari minnti þá á að ef þeir kæmu bara heiðarlega fram í samskiptum sínum við hið opinbera uppskæru þeir samkvæmt því. En ef þeir reyndu undanskot og svik myndi hinn langi armur réttvísinnar hafa uppi á þeim.

Við Skítastöð heyrðum við öskur. Sjósyndari virtist vera kominn í vandræði og öskraði í land til aðstoðarfólks sem þar var statt með reiðhjól og kassa framan á: "Hvað er langt eftir?" Okkur fannst þetta ekki gæfulegt, vera staddur í miðju sjósundi og spyrja hversu langt væri eftir. Hann var hvattur til að synda í land, en ekki var vitað hvort hann hefði gert það. Þorvaldur upplýsti að kassinn á hjólinu væri ætlaður til þess að taka við sundmanninum svo hægt væri að flytja hann á sjúkrahús. "Oní kassanum?" spurði ritari. "Já, oní kassanum" staðfesti Þorvaldur.

Blómasalinn var er hér var komið farinn að sýna gamalkunn undanbrögð, hægja vísvitandi á sér í þeirri von að vera skilinn eftir svo hann gæti svikist um og stytt hlaup. Við gáfum ekki færi á þessu enda hefur karlinn ekki hlaupið í bráðum þrjár vikur og er orðinn mjög þungur og hægur. Við biðum eftir honum og komum í veg fyrir styttingar. Áfram upp á Flanir þar sem lúpínan er horfin. Blómasalinn upplýsti um hádegisverðinn í smáatriðum og lá við að meðhlauparar hans ældu á staðnum: það var mæjónes, rúgbrauð, róstbiff, remolaði og hellingur af steiktum lauk ofan á. Ekki skrýtið að menn væru hægir á sér.

Leiðir skildu við Kringlumýrarbraut og við blómasalinn héldum áfram yfir brú. Hann var svo aðframkominn í brekkunni að við urðum að ganga upp. Er upp var komið hlupum við beint áfram í stað þess að fara hjá Útvarpshúsi og tókum afbrigði niður að Ormsson um Háaleitisbraut. Þaðan Kringlumýrarbraut niður á Sæbraut. Dóluðum rólega og stoppuðum jafnvel á milli. Gengið hjá Hörpu og rifjað upp að bæði Jörundur og ritari eiga boðsmiða á tónleika hér hinn 19da ágúst n.k. með fullum veitingum, en hvorki Vilhjálmur Bjarnason né Baldur Símonarson. Gott að halda þessu til haga.

Dólað um höfn og horft á finnskt skemmtiferðaskip yfirgefa höfnina með aðstoð hafnsögubáts. Haldið þaðan vestur á Bræðraborgarstíg þar sem blómasalinn múrarasonurinn tók út viðgerð ritara á húsi sínu þar við stíginn. Hún var samþykkt. Áfram til Laugar. Klukka blómasala sýndi grunsamlega stutt hlaup, enda fór það ekki af stað fyrr en við Kirkjugarð, þetta er ódýrt skran keypt í dollarabúð í Boston.

Á morgun er Fyrsti Föstudagur. Ekki hefur heyrst um nein áform á þeim degi. Á laugardag er hlaupið langt frá Vesturbæjarlaug, ekki styttra en 21,1 km.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband