Rólegt eftir Laugaveg

Örfáir hlauparar mættir til hlaups á miðvikudegi eftir Laugaveg. Þar á meðal ritari, Jörundur, Kalli, Guðrún og Dagný. Einhverjir fleiri sem kennsl voru ekki borin á. Prófessor Fróði ku hafa haft í frammi flimtan um hlaupara sl. mánudag, þegar rætt var um að allir hlauparar hefðu náð lágmarkstíma í Emstrur. Eftir það hefðu menn farið mishratt, sumir tekið sér góðan tíma að skoða náttúru hálendisins og þarafleiðandi verið lengur en ella að skila sér í mark. Hafði hann þá spurn um frammistöðu téðra hlaupara hvort þeir hefðu skriðið til Þórsmerkur. Þokkalega er talað um afrekshlaupara í röðum vorum!

Ósk var líka mætt en hafði tognað og treysti sér ekki til að hlaupa. Svo að þessi litli hópur lagði í hann. Við Jörundur dóluðum okkur í rólegheitum á eftir hópnum enda meiningin aðeins að hita sig lítillega upp og mýkja vöðva. Vorum í þokkalegu standi. Fórum í síðdegisblíðunni út að Skítastöð, þaðan í Skerjafjörðinn, öfugan hring miðað við mánudaga, og enduðum á 5,9 km.

Í Pott mættu auk framangreindra Flosi, Benni, Helmut og Jóhanna með ómegð. Þar var flutt sú saga að er ritari kom í mark eftir Laugaveg hefði hann horft ráðvilltur í kringum sig og spurt: "Hvar er þessi Húsadalur?" Merkileg lygasaga og óskiljanleg með öllu. Rólegir tímar framundan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband