3.7.2011 | 13:40
Afmæli
Síðastliðinn miðvikudag var toppað fyrir Laugaveginn með Flosa, blómasalanum, Frikka, Ragnari og Gústa, hlaupið frá Vesturbæjarlaug inn að Kringlumýrarbraut, snúið út á Kársnes, í Kópavogsdalinn, upp úr dalnum og línan milli sveitarfélaga þrædd allt þar til komið var að Elliðavatni, þá fóru Frikki, Ragnar og Flosi kringum vatnið, en við hinir snerum niður í Elliðaárdalinn. Gústi og blómasalinn styttu yfir engið, en ég fór alla leið upp á horn og þaðan niður að Árbæjarlaug. Staldraði við í 5 mín., bætti á brúsa, teygði, en hélt svo áfram niður úr og vestur úr. Ragnar náði mér í brekkunni eftir Fossvoginn og saman héldum við áfram yfir Kringlumýrarbraut. Í Nauthólsvík var ég orðinn ansi þreyttur og varð að ganga í bland við hlaup. Kláraði þó góða 33 km með sóma!
Í dag, sunnudag, voru það þessir hefðbundnu morgunfuglar, Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Maggi, Þorvaldur og Ólafur ritari. Nafni minn var í áttræðisafmæli Sigurðar Líndals prof.juris og var það að sjálfsögðu aðalumræðuefni dagsins. Gærdagurinn fór í að hringja í alla þá sem Ólafur vissi að var EKKI boðið í veizluna, ýmist til þess að spyrja ráða um hæfilega afmælisgjöf eða til að biðja viðkomandi um að keyra hann í Bergstaðastrætið. Af þessu hafði nafni minn og frændi mikla ánægju, en ánægjan ku ekki hafa verið gagnkvæm. Síðan voru raktir helztu gestir og samtöl sem fóru manna á milli.
Það var hálf hryssingslegt á Ægisíðunni, suðaustanátt eindregin og sólarlaust. Farið rólega eins og hefð er um. Rætt nokkuð um prestastéttina og vanda Þjóðkirkju og byskupa. Rætt um mönnun á fréttastofu RÚV. Svo var það Laugavegurinn, vöngum velt um hvernig hægt væri að koma sér á staðinn, með rútu eða einkabíl.
Gengið í Nauthólsvík. Kirkjugarður, Veðurstofa, Klambrar, Hlemmur, Sæbraut. Gengið hjá Hörpu og hlaupin ný leið um höfnina. Framhjá verbúðum og upp Ægisgötu.
Pottur óvenju vel mannaður öllum helztu stærðum.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.