Rólegt á mánudegi

Þegar komið var í Brottfararsal á mánudegi um kl. 17:15 var Jörundur þá þegar mættur með nýmerktan Guðmundarbikar og verðlaunapeninga með. Sýndi hann þessa gripi hverjum sem nennti við hann að spjalla. Gekk á þessu fram undir hlaup. Þá voru mættir auk ritara og Jörundar þessir: próf. Fróði, Benz, Þorbjörg, Einar blómasali, Flosi, Maggi, dr. Friðrik, Haraldur, Ragnar - og Melabúðar-Frikki bættist við í hlaupi.

Menn hafa hlaupið mikið að undanförnu og því skiljanlegt að ekki væri vilji til að fara langt. Af þeirri ástæðu ákváðu nokkrir hlauparar að fara rólega, en sumir voru sprækari. Maggi og dr. Friðrik voru í rólega gírnum, svo voru ritari, Jörundur og blómasali. Aðrir voru ákafari.

Þetta var stirt og erfitt þegar í upphafi, enda menn búnir að leggja að baki aðskiljanlega kílómetra á síðustu dögum. Þetta átti aðeins að vera smáupphitun, Aumingi, 8 km, Hlíðarfótur. Mikið ströggl framan af og emjuðu menn af bólgum og verkjum. En smásaman linaðist vanlíðanin. Í Nauthólsvík syntu menn í sjó þrátt fyrir norðanbál og heimskautavetur.

Þar vorum við félagar orðnir samferða og tókum því rólega, gengum hjá HR. Rætt um réttarhöld yfir Geir Haarde og sýndist sitt hverjum. Rifin upp lúpína. Haldið áfram hlaupi. Gvuðsmenn og kapella, og svo Hringbraut tilbaka. Farið afar rólega og gengið inn á milli. "Ertu virkilega að fara Laugaveginn?" spurði Jörundur. Ritari svaraði ekki. Blómasali spurði:"Ætlarðu ekki að svara honum? Hann er að spyrja þig spurningar." Þá sagði Jörundur:"Nei, ég var að spyrja þig, blómasali, hvort þú værir örugglega að fara Laugaveginn." Umræðan kom upp í tilefni af því að upplýst var að blómasalinn væri að fara í kvöldmatarboð þar sem lambalæri yrði á borðum og ís á eftir. Ekki bezti undirbúningur fyrir langhlaup.

Í potti gerðust hlutirnir. Benzinn óvenjuæstur og tókst að efna til illdeilna í öllum pottum áður en hann kom í barnapott. Þar hóf hann mikla ádeilu á kvótakerfi og Samfylkingu, og óðara heyrðist í heitasta potti til Frikka Meló þar sem hann skipaði Benzinum að steinhalda kjafti ellegar yrði hann rekinn úr Laug. Nú litu gestir í öðrum pottum upp, einkum gestir frá Keisarans Kína sem temja sér mjög komur í potta á okkar tíma. Voru þeir furðu lostnir yfir þessum hávaða. Loks kom Frikki yfir til okkar og þá gátu deilurnar fyrst farið af stað.

Á morgun Minningarhlaup. Vel mætt! Myndataka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband