15.5.2011 | 13:40
Vinaleysið algjört
Við vorum fjórir félagarnir sem mættum til hlaups kl. 10:10 á sunnudagsmorgni, Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Jörundur og ritari. Og enn streymdi fólk að sem kom að Vesturbæjarlaug lokaðri og lýsti furðu á þessu ástandi, þeirra á meðal Jón Bjarnason ráðherra. Veður fagurt, sól, en ekki mjög hlýtt. Farið rólega af stað eins og ævinlega á sunnudögum.
Ó. Þorsteinsson sagði okkur andlát ættingja síns og að pöntuð hefði verið minningargrein. Hann snaraði fram grein upp á 4.000 slög með bilum. Dödens avis brást hið versta við og sagði greinina allt of langa og líklega yrði hún ekki birt nema pláss losnaði einhvern tíma seint og um síðir. Þótti frænda þetta sýna hið algjöra vinaleysi sitt, að m.a.s. pantaðri minningargrein væri hafnað. Þetta hlyti að gleðja ónefndan álitsgjafa í Garðabæ.
Upplýst var að Vesturbæjarblaðið hygðist hafa prinsessuviðtal við Formann einhvern næstu daga. Þá gæfist tækifæri til að rifja upp upphafið og þá félaga okkar sem fallnir væru frá langt fyrir aldur fram. Ennfremur að hlaup héldu frá okkur lungnaþembu, gyllinæð og Alzheimer. Hlaup eru líka menningarstarfsemi og Samtök Vor einhver þekktasti menningarklúbbur í bænum, eins og hin fræga afmælisveizla okkar síðasta haust sýnir fram á.
Stoppað inni í Nauthólsvík og lokið við sögu sem hófst allnokkru fyrr. Fjallaði sú saga um heilsufar eldri karlmanna, en sumir viðstaddra eru farnir að brjótast út í hrúðurkörlum í andliti sem læknar ýmist frysta eða brenna og eru merki um elli. Deilt um hvort sólarljós væri skaðlegt þeim sem þjást af þessum kvilla.
Síðan farið þetta hefðbundið um Hálendið og Klambratún. Þorvaldur yfirgaf okkur við Hlemm, fór Laugaveg, meðan við hinir settum stefnuna á Sæbraut. Það var orðið tímabært að fara um planið hjá Hörpu. Þar tókum við eftir verklegum harðviðarbrúm sem vafalaust hafa fallið í kramið hjá prúðbúnum veizlugestum á föstudaginn eð var. Hlupum um hafnarsvæðið og hér kom okkur Vilhjálmur okkar í hug, en langt er síðan hann hefur þreytt með okkur hlaup um höfnina. Gengum um verbúðahverfið sem tekur á sig æ skemmtilegri mynd með verzlunum og veitingastöðum. Tókum einnig eftir nýbyggðu húsi vestan við verbúðirnar.
Farin Ægisgata og sú leið tilbaka. Setið í potti og rifjuð upp sum þeirra málefna sem komu til tals í hlaupi dagsins.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 17:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.