Fuglasöngur á vori

Nú er vorið komið, páskahret að baki, fuglasöngur í Fossvogsdal. Af þessu tilefni safnaðist hópur hlaupara saman í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar einbeittir í þeim ásetningi að eiga góðan dag saman á hlaupum. Hér mátti bera kennsl á marga af ágætustu hlaupurum Samtaka Vorra, þeirra á meðal. próf. dr. Fróða, René, Ragnar, Hjálmar, Ósk, Þorbjörgu K., Möggu þjálfara, Flosa, Kalla, Bjössa, Helmut, dr. Jóhönnu, Þorvald, ritara, Dagnýju - og svo birtist Frikki kaupmaður skyndilega eftir að hlaup var hafið.

Magga sagðist vera án erindis í dag, en lagði engu að síður til að farið yrði í Öskjuhlíðina. Ég skal viðurkenna að ég áttaði mig ekki fyllilega á þessari leiðarlýsingu, enda ákveðinn í að fara lengra. Bjössi ætlaði styttra. Vart þarf að hafa á orði að prófessorinn fellir hlaup sín ekki undir fyrirætlanir annarra. Hann er eins og kötturinn, fer sínar eigin leiðir. Af upptalningunni hér að framan má vera ljóst að tilteknir aðilar lýstu með fjarveru sinni: blómasalinn, Maggi tannlæknir og Jörundur. Engar skýringar fengust á fjarveru þeirra. En það var slæmt að öðru leyti, því að hópurinn fór fáránlega hratt út, í stað þess að sigla þetta rólega eins og Jörundur gerir jafnan, og bæta í eftir því sem líður á hlaup og menn hitna. Það var hins vegar sú strategía sem ritari fylgdi.

Þeir sem ætluðu í Öskjuhlíðina héldu hópinn og skildu ritara eftir. Ég varð samferða Dagnýju inn að flugvelli, en þar sagði hún skilið við mig og gaf í. Eftir þetta var ég einn á hlaupi. Hér hefði maður þurft að hafa rólega hlaupara eins og blómasalann, Jörund eða Benzinn til þess að stytta sér stundir og gera hlaupið bærilegra. En, hlutskipti hlauparans er þetta, að vera alltaf einn.

Í brekkunni neðan við Kirkjugarð varð á vegi mínum einkennilegur fugl: prófessor Fróði var kyrrstæður með víraflækju um hálsinn og var að reyna að greiða úr henni. Aðspurður kvaðst hann vera að reyna að verða sér úti um einhverja "mússíkk". Undarlegar aðfarir þetta, að í stað þess að hlaupa eru menn að vesenast með einhver tónlistarappíröt sem trufla hlaup af því að snúrurnar flækjast fyrir mönnum. Ég lét sem ég sæi þetta ekki og hélt áfram hlaupi mínu. Ef prófessorinn hefði áhuga gæti hann reynt að ná mér síðar í hlaupinu.

Yfir brú og í Fossvoginn. Ég bjóst við að prófessorinn næði mér þá og þegar, og loks heyrði ég í einhverjum másandi og blásandi að baki mér, ætlaði að snúa mér við og hreyta ónotum í viðkomandi, en hætti við og eins gott, því þetta var ekki hann. Framhjá Víkingsheimili og niður að ánum án þess að verða var við félaga minn. Hér var ég orðinn léttur sem fiðrildi og sveif þetta áreynslulaust áfram. Hólminn, brú, undir Breiðholtsbraut og svo upp Stokkinn á góðu tempói.

Áfram Stokkinn tilbaka og lauk 16 km hlaupi á góðum tíma. Flestir farnir þegar komið var tilbaka. En um það bil sem ég var í Útiklefa mætti blómasalinn óhlaupinn og með afsökunum. Pottur hersetinn af Kínverjum sem örguðu hver á annan. Á leið upp úr varð á vegi okkar próf. dr. Fróði í Móttökusal. Þar stóð hann á tali við Hjálmar. Ég reyndi að fiska upp úr honum hvað hann hefði hlaupið langt, en hann var svo þvoglumæltur að ég skildi hann ekki, auk þess sem slefan rann niður hökuna á honum og var hann harla ókennilegur. Ég forðaði mér í burtu.

Næst: föstudagur, léttur undirbúningur fyrir laugardaginn, sem er langur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

menningin átti hug minn allan.

jöri (IP-tala skráð) 28.4.2011 kl. 09:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband