16.4.2011 | 18:52
Skynsemi
Blómasalinn mætti í hlaup að morgni ásamt Bigga og saman lentu þeir í hríðarbyl á Nesi og sáu vart út úr. Þeir voru eins og lúpur er þeir komu tilbaka og fengu lítið út úr þessu hlaupi. Öðru máli gegndi um hlaupara sem mættu kl. 16:30 í hefðbundið föstudagshlaup Hlaupasamtakanna. Þar mátti sjá konu eina, Rúnu Hvannberg, og auk þess voru Jörundur, Ágúst, Flosi, Bjarni Benz, Þorvaldur, Denni skransali og ritari.
Veður var með mestu ágætum, stilla og hiti um 4 stig, en við það hitastig er heilinn sagður starfa bezt. Það sýndi sig í því að menn voru skynsamir í dag. Farið rólega af stað og byrjað á að hita upp. Við mættum dr. Jóhönnu sem ku hafa farið 32 km þennan dag. Ég hékk í prófessornum, Þorvaldi og Benzinum allt fram í Nauthólsvík, já, og raunar lengra. Minnismerkið um allsherjargoðann er eins og fallosartákn þar sem það rís beint upp í loftið, skyldi það vera vísvitandi?
Við Gústi fórum upp brekkuna og Þorvaldur með, hér sprakk Benzinn, og hinir voru einhvers staðar langt fyrir aftan. Ágúst ákvað að segja skilið við okkur vini sína hér og fara sína eigin leið. Samt sá maður til hans allt þar til komið var á Klambratún, þar var sprett úr spori og skildi þá endanlega með okkur. Við Þorvaldur héldum hópinn og fórum Rauðarárstíginn og er komið var á Hlemm vildi hann fara Laugaveginn. Ég krafðist þess að farið yrði á Sæbraut og varð það niðurstaðan.
Er þangað var komið setti ég í túrbóinn og skildi Þorvald eftir. Þá leið mér eins og Ágústi. Þá leið mér vel. Var á góðu tempói alla leið og sá aldrei til þeirra hinna. Fór um Hljómskálagarð og lauk 11,8 km á 65 mín. Svo skiluðu þeir hinir sér seint og um síðir og voru fullir öfundar og hrakyrða í garð ritara. En mér fannst hlaup mitt skynsamlegt, tiltölulega þétt og jafnt og reyndi hæfilega á hlauparann. Pottur hefðbundinn og voru þar einnig Kári óhlaupinn og Anna Birna.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.