"Nú veit ég hvað varð um rauðu nærbuxurnar mínar!"

Það von að þú, lesandi góður, veltir fyrir þér til hvers fyrirsögn þessa pistils vísar, en það verður ekki upplýst fyrr en í lokin, þegar hlaupahópur er kominn í pott. En upphaf þessarar frásagnar er það að hópur hlaupara kom saman til hlaupa í Vesturbæjarlaug rétt fyrir 17:30. Sem fyrr hittust Naglarnir í Útiklefa, þeir Bjössi, blómasali, ritari, Flosi og Kári. Nokkrir lýstu yfir ásetningi um langt hlaup, en ritarinn var skynsamur og kvaðst mundu fylgja prógramminu. Er komið var í Brottfararsal leitaði hann að öðrum skynsömum hlaupara og fann hann í Jörundi, við urðum ásáttir um að fara Þriggjabrúa, hægt fyrst, hægt í Boggabrekkuna, en vaxandi eftir það. Aðrir voru með gorgeir, nema náttúrlega þeir sem ætluðu enn styttra, Hlíðarfót eða Suðurhlíð. Mættir auk fyrrnefndra: próf. Fróði, Maggi, dr. Jóhanna, Helmut, Hannes, Sigurjón Jónsson búsettur í Sádí Arabíu, Frikki Meló (vantaði buxur og hætti við), Rúnar og líklega einhverjir fleiri.

Lítið um tillögur við upphaf hlaups, en ákveðið að leggja upp rólega í átt að Skítastöð. Fólk hafði áhyggjur af henni Ósk okkar, sem kaus að setjast frekar á Alþingi en að hlaupa með félögum sínum. Hvers konar forgangsröðun er þetta eiginlega? Fórum afar hægt af stað og var það áætlun okkar Jörundar. Rætt um Háskólahlaup sem hann Ólafur okkar Þorsteinsson stendur fyrir á morgun kl. 15. Og í það mund staðnæmdist kampavínslit jeppabifreið á Ægisíðu og flautaði: Formaður til Lífstíðar heiðraði hlaupara með lúðurþeytingu. Menn veltu fyrir sér hvort hægt væri að hafa hlaupið svo snemma á deginum vegna þess að þá lykju ríkisstarfsmenn störfum sínum, byrjuðu kl. 10, og hættu kl. 15. "Ha?", sagði prófessorinn. "Byrja þeir svona snemma?" Magnús sagði brandara sem laut að styttingu vinnudagsins í Danmörku.

Hersingin hélt sem leið lá út að Skítastöð og hér var blómasalinn farinn að derra sig. Ég spáði því að hann myndi fljótlega sprengja sig. Við Jörundur vorum bara rólegir og góðir, tókum Magga með okkur og reyndum að fá hann í Þriggjabrúa, en hann kaus að fara Suðurhlíð með Helmut. Aðrir yfir brú, Flosi, blómasali og prófessor áfram í Fossvoginn, en við Jörundur skynsamir og fórum upp Brekku rólega. Hér vorum við orðnir heitir og gátum farið að bæta í eftir Veðurstofuhálendi. Héldum góðu tempói á Kringlumýrarbraut og allt niður á Sæbraut, og mér fannst við halda því tempói þar, ekki viss um að Jörundur bekenni það. Rákumst á stóra hópa útlendinga á brautinni sem við vissum ekki hvaðan komu. Farið hjá Svörtuloftum, Hörpu og um Miðbæ. Aftur voru hópar af útlendingum svo að við neyddumst út á götuna, þvældumst þar fyrir strætó sem flautaði á okkur, gamall og geðstirður bílstjóri sem komst ekki leiðar sinnar, leiðar 14 Listabraut.

Hljómskálagarður og sú leið tilbaka. Við vorum harla góðir og ánægjulegt að geta haldið góðu tempói alla leið, ja, við vorum að vísu dottnir niður í 6 mín. tempó undir lokin, en samt... Gott hlaup. Í potti sátu Helmut, Jóhanna, Anna Birna og Kári og voru kindarleg. Skýringin var þessi: ónefndur prófessor í akademíunni hafði verið í Laug, og farið upp úr. Kom þá í ljós að hann var íklæddur lítilli, níðþröngri, eldrauðri sundskýlu. Hér gellur í dr. Jóhönnu: "Nú veit ég hvað varð um rauðu nærbuxurnar mínar!" Þessi ummæli var ekki hægt að toppa og skipti engu máli þótt í pott bættust menn eins og Bjössi, blómasalinn og Flosi. Þeir kunnu að segja frá því að þeir fóru inn í Elliðaárdal, þaðan út á Langholtsveg og svo út á Kleppsveg. Hér tekur blómasalinn á rás og skilur þá hina eftir. Þeir fundu hann ekki fyrr en á Kleppi, þar sem dómbærir menn höfðu tekið hann í vörzlu sína og neituðu að afhenda hann. Tók við mikið stapp og stímabrak við að ná honum út, en það hafðist á endanum og varð hann frelsinu feginn. Þeir luku 20 km + í kvöld, og mun blómasalinn ekki hafa verið lakastur.

Sumsé: Háskólahlaup á morgun, vel mætt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband