Veðrabrigði

Það var hugur í mönnum er staðið var í Útiklefa, stigið var á stokk og heit strengd um að fara langt. Ólafur ritari ætlaði stutt og hægt, reyna við Hlíðarfót, og jafnvel fara styttra ef illa færi, enda með hexeskud í bakhöfðinu, sem er einn djöfullegur skafanki. Þarna stóð blómasalinn á sokkunum einum og reif kjaft eins og honum einum var lagið, storkandi glottið lék um útblásna hvoftana. Aðrir í Útiklefa voru Flosi, Kári og nýr félagi, Auðunn Atlason ef ég hef náð nafninu rétt. Hann lýsti yfir ásetningi um að fara hægt og stutt eins og ritari. Í Brottfararsal voru prófessor Fróði, Þorbjörg, Magga þjálfari, Rúnar, René, Guðmundur Löve, Maggi og svo birtust Helmut, dr. Jóhanna og Frikki Meló. Það voru einhverjir fleiri sem ég gleymi eða vantar nöfnin á.

Á miðvikudögum er hefðbundið að fara Þriggjabrúa, engar athugasemdir við það, en sem fyrr sagði voru fyrirætlanir um lengra. Farið af stað í björtu og fögru veðri, en skjótt skipast veður í lofti, áður en yfir lauk höfðu dunið á okkur flestar tegundir veðurs sem við þekkjum: sólskin, rok, rigning, haglél, og ég veit ekki hvað. Hópurinn var hægur framan af og er komið var í Nauthólsvík hékk ég enn í fremstu hlaupurum, og með frambærilegt fólk að baki mér. Þrátt fyrir yfirlýsingar um stutt og hægt var ég þannig stemmdur að ég tók brúna yfir Kringlumýrarbraut í stað þess að steðja upp Suðurhlíð eins og sumir. Hlaup er nefnilega fljótlega hálfnað eftir að maður er kominn upp hjá Bogganum og upp á Veðurstofuhálendið. Hér náði Magga mér loksins, orðin eitthvað hæg greyið, e.t.v. búin að bæta á sig nokkrum kílóum, hver veit?

Ég sá ekki blómasalann eða Flosa, en vissi að prófessorinn hefði haldið áfram í Fossvoginn. Sá eiginlega engan fyrr en Albert á brúnni yfir Miklubraut og Frikki skaut upp kollinum á Kringlumýrarbraut. Fórum rólega niður á Sæbraut, en þar gaf Frikki í og þar skall síðasta hryðjan á okkur, brjálað haglél og mótvindur sem erfitt var að berjast á móti. Það er erfitt og leiðinlegt að hlaupa við þessi skilyrði: Hannes Hafstein, eat my shorts! Og ekki bætir úr skák að ekkert vatn er að hafa á leiðinni svo að maður hefur enga ástæðu til að staldra við hjá drykkjarstöðinni. Áfram út að Hörpu.

Eftir þetta fór ég Geirsgötu og stytztu leið tilbaka. Þá voru aðeins Frikki og Þorbjörg þar, teygt lítillega og farið í Pott. Við máttum bíða lengi eftir næstu mönnum, Flosi og blómasalinn komu um hálfátta og höfðu farið 18 km, og við sáum prófessornum bregða fyrir í Móttökusal, hefur líklega ekki farið skemur en 20 km. Ágætishlaup hjá okkur öllum og nú er að muna að skrá í dagbókina!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband