30.3.2011 | 20:59
Klassík
Enn þráast borgaryfirvöld við og halda til streitu stefnu sinni um að opna Vesturbæjarlaug kl. 11 á sunnudagsmorgnum, en kl. 9 á laugardagsmorgnum. Afgreiðslutímar eru þá 9-17 á laugardögum, en 11-18 á sunnudögum. Af hverju ekki að hafa þetta bara samræmt, 9-17 báða daga? Það er eins og það sé beinlínis meiningin með þessari aðgerð að torvelda menningarstarf Hlaupasamtakanna á sunnudagsmorgnum. Það þarf greinilega að herða andófið gegn þessu andmenningarlega athæfi, þessum fjandskap gegn elztu menningarsamtökum Vesturbæjarins, ef frá er skilin sjálf akademían.
Mættur allstór hópur hlaupara á miðvikudegi í aldeilis glimrandi hlaupaveðri, tiltölulega stillt, uppstytta og hiti 7 stig. Ekki held ég sé tilefni til að telja upp einstaka hlaupara, við Magnús sammæltumst um að fara stutt rólega, Hlífðarfót. Þorvaldur dróst á að dóla þetta með okkur líka. Þó er ekki rétt að tala um dól, því að við vorum með fremstu mönnum lengi framan af, alveg inn að Skítastöð, þar sem aðrir hlauparar stoppuðu og biðu frekari fyrirmæla, en við áfram með Gústa fyrir framan okkur. Hann ætlaði langt. Við vorum rólegir fannst mér, en samt voru hlauparar eins og blómasalinn og Biggi langt fyrir aftan okkur og urðum við aldrei varir við þá. Tempóið hefur verið 5:20 til 5:30.
Maggi sagði söguna af framförum í læknavísindum, að vísu með afbrigðum, en þetta er góð saga. Stoppað í Nauthólsvík og öðrum hlaupurum gefinn kostur á að ná okkur, en það gerðist ekki. Við áfram í Öskjuhlíðina, Flugvallarveg og hjá Gvuðsmönnum. Hér var ritari orðinn heitur og fínn og hnéð var til friðs. Gefið í við flugvöll og tekinn sprettur. Rólega það sem eftir var. Teygt á Plani og Pottur. Þar sem setið var í Potti mátti greina þá blómasala og Bigga í Sal og virtust þeir bæði þjáðir og vonsviknir.
Þar sem ritari ók bifreið sinni um Geirsgötu löngu eftir hlaup sá hann Gústa koma hlaupandi, greinilega hafandi farið 69. Nú fer að líða að því að fleiri hlauparar fara að fylgja honum inn að Elliðaám, því eins og sagði í fyrra pistli, er vorið komið og þá förum við að lengja.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.